Lamaðist við að snýta sér – Sá þetta fyrir – DV

0
99

Nýársdagur 2022 var örlagaríkur fyrir áströlsku konuna Kristy Bonner og maka hennar, sem kýs nafnleynd. Hann fann á sér að eitthvað slæmt myndi gerast og skömmu síðar var hann lamaður. Á nýársdag lamaðist hann og ekki er útlit fyrir að lömunin muni ganga til baka að sögn Unilad.

Kristy, sem er 34 ára, var heima hjá sér þegar hún heyrði dynk frá baðherberginu. „Ég flýtti mér þangað inn og fann maka minn meðvitundarlausan á gólfinu. Hann hafði rekið hnakkann í,“ sagði Kristy og bætti við að höggið hafi hnakkabrotið hann.

Hann datt þegar hann snýtti sér svo kröftuglega að hann svimaði. Í fallinu rak hann hnakkann í baðborð með fyrrgreindum afleiðingum. Hann hefur ekki getað gengið síðan og læknar telja að hann muni aldrei ná sér að fullu.

Málið hefur haft mikil áhrif á Kristy sem glímir nú við þunglyndi og um hríð átti hún í erfiðleikum með að sinna rekstri fyrirtækis síns og fór það nærri því á hausinn.

Eins og gefur að skilja eru hjónin miður sín vegna slyssins og þegar Kristy hugsar aftur til þessa örlagaríka dags fer hrollur um hana. Ástæðan er að skömmu fyrir slysið sá maðurinn hennar slysið fyrir. „Ég gleymi aldrei að hann sagði að hann fyndi að eitthvað slæmt væri í uppsiglingu. Þegar ég horfi til baka fer hrollur um mig,“ sagði hún.