7.3 C
Grindavik
24. október, 2021

Landsréttarmálið loks búið – Brot Sigríðar metið alvarlegt og sagt grafa undan grundvallar mannréttindum

Skyldulesning

Yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu hefur staðfest niðurstöðu undirdeildar um að dómarar við Landsrétt, sem Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómstólaráðherra, skipaði þvert á álit hæfnisnefndar hafi verið ólöglega skipaðir.

Þetta þýðir að endanleg niðurstaða er komin í málið og skipan dómara í Landsrétt árið 2017 braut gegn 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu en í þeirri grein er kveðið á um rétt einstaklinga til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi.

Það var Guðmundur A. Ástráðsson sem höfðaði málið gegn Íslandi en hann hafði verið dæmdur í 17 mánaða fangelsi fyrir margvísleg brot. Taldi hann að mál hans hefði ekki fengið réttláta málsmeðferð fyrir Landsrétti þar sem dómarinn í málinu, Arnfríður Einarsdóttir, hafi verið ólöglega skipuð.

Sigríður Á. Andersson hafði fengið lista yfir hæfustu umsækjendur um embætti Landsréttardómara frá þar til gerðri hæfnisnefnd. Sigríður breytti hins vegar listanum og raðaði inn fjórum einstaklingum sem ekki höfðu verið metnir meðal þeirra hæfustu. Sigríður hefur staðið fast við þessa ákvörðun sína og ávallt haldið því fram að hún hafi haft málefnalegar ástæður fyrir því að endurraða á listann. Út af listanum duttu Ástráður Haraldsson, hæstaréttarlögmaður, Eiríkur Jónsson, prófessor, Jóhannes Rúnar Jóhannsson, hæstaréttarlögmaður og Jón Höskuldsson, héraðsdómari.

Í stað þeirra komu á lista: Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Jón Finnbjörnsson og Ragnheiður Bragadóttir.

Í kjölfarið af Landsréttarmálinu var óvíst með stöðu fjórmenningana sem bætt var á listann, en síðan þá hafa þau öll, utan Jóns, fengið nýja skipun við dómstólinn.

Í dómi yfirdeildar segir:

„Þó að ráðherrann hafi lögum samkvæmt mátt víkja frá mati hæfnisnefndar, í vissum tilfellum, þá virti hún að vettugi grundvallar málsmeðferðarreglur sem gerðu henni skylt að byggja slíka ákvörðun á fullnægjandi rannsókn og heildarmati. Þessar reglur voru mikilvægur varnagli gegn því að ráðherra gæti byggt ákvarðanir sínar á pólitískum eða öðrum óviðeigandi forsendum sem gætu grafið undan sjálfstæði og lögmæti áfrýjunardómstólsins.“

Dómstóllinn hafnar þeim rökum að Sigríður hafi byggt ákvörðun sína á jafnréttislögum. Jafnréttislög gildi þegar tveir umsækjendur með sömu hæfni komi til álita um tiltekið starf. Lögin geri það ekki að verkum að annað kynið eigi að fá forgjöf sökum kyns síns.

Þar segir ennfremur að þó því sé ekki hægt að slá á föstu að Sigríður Á. Andersen hafi tekið ákvörðun sína á pólitískum forsendum, þá skapaði ákvörðun hennar grundvöll fyrir slíkum áhyggjum. Eins var brot hennar metið sérlega alvarlegt þar sem Sigríði hafi ítrekað verið bent gildandi málsmeðferðarreglur á meðan hún var að taka ákvörðun um skipan dómarana.  Eins hafi hún virt að vettugi þá álitshnekki sem þeir umsækjendur um embættin, sem var ýtt neðar á lista, gætu hlotið.

Eins víkur dómstóllinn að Alþingi, en Alþingi er sagt hafa brugðist skyldu sinni með því að krefjast þess ekki að Sigríður kæmi með hlutlægan rökstuðning á breytingunum.  Eins hafi verið kosið um lista umsækjenda í heild, frekar en kosið um hvern fyrir sig líkt og lög geri ráð fyrir.

Allt í allt kemst yfirdeild að þeirri niðurstöðu að brot Íslands hafi verið það alvarlegt að það hafi grafið undan grundvallar réttinum um réttláta málsmeðferð fyrir dómstólum sem skipaðir eru með lögum.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir