8 C
Grindavik
15. apríl, 2021

Landsréttir staðfestir frávísun milljarðakröfu Jóns Ásgeirs og Ingibjargar

Skyldulesning

Landsréttur hefur staðfest niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um að vísa frá milljarðakröfu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Ingibjargar Stefaníu Pálmadóttur og 365 miðla hf. gegn Sýn hf., forstjóra þess Heiðari Guðjónssyni og öllum stjórnarmönnum.

Í niðurstöðu dómara Landsréttar segir að annmarkar á málatilbúnaði þeirra hjóna og 365 sé ástæða þess að úrskurður héraðsdóms var staðfestur. Þá var þeim gert að greiða 55 þúsund krónur í málskostnað, til allra þeirra sem þau stefndu. Alls rúma hálfa milljón króna.

Jón Ásgeir, Ingibjörg og 365 hf. kröfðu áðurnefnda aðila hvert um sig um milljarð króna í skaðabætur, alls þrjá milljarða króna. Áður hafði Sýn stefnt hjónunum og krafist um 1,7 milljarða króna vegna meintra brota á kaupsamningi.

Rætur málsins liggja í því að í ársreikningi Sýnar fyrir árið 2019 var tekið fram að höfða ætti mál gegn Jóni Ásgeiri og Ingibjörgu og byggðu þá mál sitt á því að þau hefðu orðið fyrir tjóni vegna þeirra ummæla og málsóknarinnar sem þau töldu tilhæfulausa.

Sýn keypti stóran hluta eigna 365 miðla, þar á meðal fjölmiðlana Stöð 2, Bylgjuna og Vísi, í mars árið 2017. Fréttablaðið varð eftir hjá 365 miðlum. Í kaupsamningi var ákvæði um samkeppnisbann.

Forsvarsmenn Sýndar sendu Jóni Ásgeiri, Ingibjörgu, 365 og Torgi, núverandi útgáfufélagi Fréttablaðsins, bréf í fyrra þar sem þeirri skoðun var lýst að hluti af starfsemi vefmiðils Fréttablaðsins bryti gegn samkeppnisákvæði kaupsamningsins. Það ákvæði veitti rétt til að krefjast dagsekta upp á fimm milljónir króna.

Vísir er í eigu Sýnar.

Innlendar Fréttir