4 C
Grindavik
8. maí, 2021

Langt leiddur spilafíkill settur í bann hjá Hjálparsímanum

Skyldulesning

Spilafíkill sem ítrekað áreitti og hafði í hótunum við starfsmenn og sjálfboðaliða Rauða krossins var settur í bann og getur hann ekki hringt lengur í 1717. Maðurinn vildi gagnrýna og ræða rekstur RKÍ á spilakössum.

Þegar maðurinn hringir í 1717 eða aðalnúmer RKÍ þá nær hann ekki í gegn því það er lokað á númerið hans. 

Kristín Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands, segir það hafa verið algjört neyðarúrræði og mikla undantekningu. Maðurinn hafi hringt allt upp í þrjú hundruð sinnum á einni nóttu, stoppað allt innflæði og haft í hótunum við sjálfboðaliða og starfsfólk. Vernda hafi þurft fólkið enda sé Hjálparsíminn ekki til þess gerður að ræða rekstur RKÍ á spilakössum. 

RKÍ á hluta í Íslandsspilum ásamt Landsbjörg og SÁÁ, sem reka spilakassa víða um land.

Spilafíklar sem sögðu sögu sína í Kompás sögðu að lokun spilasala í samkomubanni hafi gjörbreytt lífi þeirra.

Alma Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn, segist ekki talsmaður þess að spilafíklar hafi í hótunum við hjálparsamtök en að staða Rauða krossins sé önnur þar sem fjármunir spilafíkla séu hluti af fjáröflun samtakanna.

„Þetta eru ekki frjáls framlög, fólk er ekki að gera þetta af fúsum og frjálsum vilja. Rauði kross Íslands getur ekki firrað sig ábyrgð, þetta eru afleiðingarnar. Menn verða bara að taka því eða hætta,“ segir Alma.

Tilkynna málið en ekki sópa því undir teppi

Kristín neitar fyrir að Rauði krossinn sé beggja vegna borðs, græði á spilakössum en á sama tíma veiti neyðaraðstoð í hjálparsíma þar sem margir spilafíklar leita aðstoðar. Alma er ósammála því og bendir á að SÁÁ ætli að draga sig út úr rekstrinum því hann samræmist ekki gildum samtakanna.

„En af hverju samræmist þetta gildum Rauða krossins, Landsbjargar og Happdrætti Háskóla Íslands? Eru þau eitthvað ósiðlegri en SÁÁ?“

Alma er formaður áhugafólks um spilafíkn. Hún segir Rauða krossinn hafa sett sig í erfiða stöðu og það sé grafalvarlegt að óþægilegir spilafíklar séu settir í bann.vísir/arnar

Alma segir að tilkynna hefði átt mál mannsins, sem var bannaður vegna vegna mjög öfgakenndrar hegðunar, til löggjafans sem veitir leyfi til reksturs spilakassa.

„Því að löggjafinn treystir Rauða krossinum fyrir þessari starfsemi. Svo er rétt að taka fram að þótt löggjafinn gefi leyfi þá er ekki þar með sagt að Rauði krossinn þurfi að nýta það leyfi, síður en svo. Rauði krossinn getur alltaf haft frumkvæðið og sagt við löggjafann að þeir vilji ekki svona peninga,“ segir Alma.

Kristín bendir á að allt íþróttastarf, mannúðarstarf og neyðarvarnir séu fjármagnaðar með getraunum, lottó, lengju, happdrætti, spilakössum og svo mætti lengi telja. Það sé löng hefð fyrir því hér á landi.

„Ef við viljum breyta því og taka upp þá umræðu þá er Rauði krossinn til í það og eigendur Íslandsspila.“

Óskastaðan að fjármagn væri tryggt

Þá hafi spilakassar verið mikilvæg fjáröflun samtakanna í fimmtíu ár. Rekstur á spilakössum hafi þó lengi verið umdeildur innan samtakanna.

„Þetta er tilfinningamál en allir skilja að við þurfum þessa fjáröflun til að standa undir verkefnum. Við erum að fara að halda áfram að reka Íslandsspil, það er engin breyting framundan í því.“

Væruð þið til í að fá fjármuni öðruvísi?

„Að sjálfsögðu værum við til í að fá fjármuni annars staðar frá og tryggja óeyrnamerkt fjármagn til Rauða krossins,“ svarar Kristín.

Kristín Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands, segir tvo hafa verið setta í bann hjá Hjálparsímanum á síðustu fimm árum. Slíkt sé algjört neyðarúrræðivísir/arnar

Þannig fjármagni RKÍ ýmis verkefni sem ekki séu bundin þjónustusamningi. Kristín tekur fram Rauða krossinn ásamt Íslandsspilum hafi alltaf lagt áherslu á forvarnir, að ráðast þurfi að rót vandans sem sé fíknin sjálf í stað þess að loka eða banna spilakassa og einnig hafi þau talað fyrir spilakortum, sem takmarki upphæð sem fólk noti í kassana, en fyrir daufum eyrum. Framkvæmdin sé í höndum stjórnvalda.

Hver væri óskastaðan? „Að tryggja fjármagn til verkefna Rauða krossins. Það er óskastaðan. Ef við getum tryggt fjármuni fyrir þessum nauðsynlegu verkefnum sem við erum að sinna fyrir samfélagið, stjórnvöld og almenning. Þá erum við sátt,“ segir Kristín og bætir við að við séum föst í umræðunni um spilakassa og fólk sem á við spilavanda að etja. 

„Við náum engum árangri nema við setjumst niður og ræðum úrræðin. Úrræði fyrir þá sem hafa ekki stjórn á spilum.“


Tengdar fréttir


Flestir spilafíklar eru með fíkn í spilakassa. Þeir hafa verið lokaðir í samkomubanni. Heitasta ósk þriggja viðmælenda Kompáss er að kassarnir verði ekki opnaðir aftur.


Allmargir úr hópi fólks með þroskahömlun eiga við spilafíkn að stríða og eyða oft síðustu aurunum af örorkulífeyrinum í spilakassa. Verkefnastjóri hjá Þroskahjálp segir skorta fræðslu og sérhæfða fíknimeðferð fyrir hópinn.


Miklar áhyggjur eru af íþróttaveðmálum ungra karlmanna. Dæmi eru um að tvítugir menn tapi mörgum milljónum á netinu. Engin sérhæfð spilafíklameðferð er í boði á Íslandi.


Formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn segir að í fyrsta skipti frá árinu 1994 fái spilafíklar frelsi frá spilakössum vegna samkomubannsins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.


Fleiri fréttir

Sjá meira

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir