Leggja til 37% minni grásleppuafla

0
143

Grásleppu landað á Húsavík. Ráðgjöf um hámarksafla hefur dregist saman um 37% milli ára. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Hafrannsóknastofnun leggur til að hámarksafli á grásleppuvertíð ársins verði 4.411 tonn sem er 37% minna en á síðasta ári þegar ráðgjöfin var 6.972 tonn.

Ráðgjöfin byggir á niðurstöðum mælinga í marsrallinu og mældist stofnvísitala grásleppu undir langtíma meðaltali. Nokkur óvissa er sögð í mælingum á stofninum og kveðst Hafrannsóknastofnun þess vegna taka tillit til fyrri mælinga í ráðgjöf sem birt hefur verið á vef stofnunarinnar.

„Stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum er talin ná yfir útbreiðslu grásleppu með tilliti til dreifingu og dýpis. Stofnvísitala grásleppu hefur sveiflast mikið og því er mikilvægt að afli hvers árs taki mið af stofnstærð sama árs frekar en ársins á undan. Vegna óvissu í mælingunum er tekið tillit til vísitölu fyrra árs (30% vægi) á móti nýrri mælingu (70% vægi) við útreikning ráðlagðs hámarksafla,“ segir í ráðgjafarskjalinu.

Þá er samhliða ráðgjöf um hámarksafla á yfirstandandi grásleppuvertíð birt ráðgjöf um upphafsaflamark á vertíðinni fiskveiðiárið 2023/2024 og nemur hún 1.193 tonnum.