8.3 C
Grindavik
25. september, 2022

Leifar lægðarinnar

Skyldulesning

Lofthjúpur og haf eru fáeina daga að jafna sig eftir illviðrið. Kalda loftið úr vestri og sjórinn hafa ekki náð jafnvægi – miklir éljabakkar og klakkar á ferð. Öldugangur enn mikill – undiröldu mun ábyggilega gæta næstu daga langt suður eftir Atlantshafi – kannski til Brasilíustranda eða lengra. 

Eins og oft gerist í djúpum lægðum lokaðist hlýtt loft inni nærri lægðarmiðjunni. Tíma tekur fyrir það að kólna eða blandast umhverfinu. Það ber einnig í sér mikinn snúning (iðu) – sem ekki gufar upp á andartaki – munum að iða varðveitist (veldur margskonar skringilegheitum). 

w-blogg080222a

Hér sjáum við stöðuna kl.21 í kvöld (þriðjudag). Heildregnu línurnar sýna hæð 700 hPa flatarins. Innsti hringurinn í lægðarmiðjunni fyrir suðvestan land er í rúmlega 2400 metra hæð – það er lágt, en vantar þó um 100 metra niður í flatarmet febrúar yfir Keflavíkurflugvelli. Vindörvar sýna vindátt og vindhraða. Litir marka hitann. Hitinn í lægðarmiðjunni er um -12°C – um 5 stigum hærri en spáin yfir Keflavíkurflugvelli. Greinilega hlýkjarna lægðarmiðja á ferð – einskonar litlasystir fellibylja hitabeltisins. Hún er á ákveðinni leið til austurs og síðar suðausturs. Sé að marka spár heldur snúningurinn svo vel utan um hana að hægt á að verða að fylgja hlýja blettinum allt austur undir Hvítarússland (Belarus) á laugardaginn – en þó dregur smám saman úr mun á hita hans og umhverfisins. 

Lægðasveipir sem þessir sjást stundum ná upp í heiðhvolfið – og trufla veðrahvörfin – miklu fremur þó þeir sem eiga sér kalda miðju (öfugt við það sem hér er). Nú hagar þannig til að uppi í 300 hPa (í um 8500 m hæð) vottar ekkert fyrir lægðasveipnum.

w-blogg080222b

Þetta kort sýnir stöðuna í 300 hPa um hádegi á morgun (miðvikudag). Þá verður hlýja lægðarmiðjan stödd suður af Ingólfshöfða (við L-ið á myndinni). Svo sýnist sem þarna uppi sé öllum sama. Það sem er merkilegt við þetta kort er kuldinn við Vesturland. Spáin segir að frostið í 8400 metra hæð eigi að vera -65°C. Sé kafað í metalista kemur í ljós að kuldi sem þessi er ekki algengur í febrúar (og reyndar aldrei). Ekki vantar mikið upp á febrúarmetið í Keflavík (-66 stig, sett 1990). Sé rýnt í hitaritaspár (þær sýna hita í veðrahvolfs og neðri hluta heiðhvolfs yfir ákveðnum stað) kemur í ljós að um hádegi á morgun (miðvikudag) eru veðrahvörfin einmitt í 300 hPa. Ekki treystir ritstjóri hungurdiska sér til að segja af eða á um orsakir þessa kulda – hann gæti verið kominn að norðan. Aftur á móti tók hann eftir því að óvenjumikil kólnun átti sér stað í 500 hPa í vestanstorminum í gær – svo virðist sem að illviðrinu hafi tekist að hræra upp í veðrahvolfinu öllu – þannig að mættishitastigull í efri hluta þess var með minna móti.  

Við skulum að lokum líta á eina erfiðari mynd – vind- og mættishitaþversnið í gegnum lægðarmiðjuna sunnan við land um hádegi á morgun. Reikningar harmonie-líkansins (lægðin er aðeins vestar heldur en hjá reiknimiðstöðinni – en eðli hennar nákvæmlega hið sama).

w-blogg080222c

Sniðið liggur frá suðri til norðurs (eins og litla kortið sýnir – þar eru heildregnar línur sjávarmálsþrýstingur). Sniðið til hægri á myndinni sýnir þó aðeins hluta þess – frá suðurjaðrinum rétt norður að suðurströndinni. Litir sýna vindhraða, vindörvar vindátt og vindhraða og heildregnar línur eru mættishiti. 

Fyrir sunnan lægðarmiðjuna (lengst til vinstri á myndinni) blæs vindur af vestri, um 25 m/s, allt frá jörð og upp í 550 hPa – nyrðri mörk vindstrengsins eru mjög skörp. Norðan lægðarmiðjunnar er annar ámóta strengur, nema hann er grynnri, nær ekki nema upp í um 800 hPa. Þar blæs vindur af norðaustri. Lægðarmiðjan er þarna á milli. Í henni er vindur mun hægari og áttin breytileg. 

Ef við rýnum í jafnmættishitalínurnar sést að kaldara er í vindstrengjunum báðum heldur en í lægðarmiðjunni – munar nokkrum stigum (hér er mælt í Kelvinkvarða, 283 = 10°C). Brúnu strikalínurnar marka gróflega jaðar kerfisins, en rauða punktalínan fylgir nokkurn veginn hlýjasta kjarnanum. Um lægðir af þessu tagi hefur verið margt og mikið ritað. Ritsjórinn fylgdist allvel með þeirri umræðu hér á árum áður, en en hefur slegið nokkuð slöku við á seinni árum. Ástæður „hlýindanna“ geta verið fleiri en ein, innilokun á lofti að sunnan, niðurstreymi á einhverju stigi lægðamyndunarinnar, blöndun á lofti úr heiðhvolfinu þegar óðadýpkunin átti sér stað, dulvarmalosun í kerfinu áður en lægðin var fullmynduð, dulvarmalosun í kerfinu eftir að leifalægðin varð til – eða jafnvel allt þetta og fleira til – þar sem orkusamskipti við yfirborð sjávar koma við sögu. Fyrir 35 árum voru menn jafnvel dónalegir við hvern annan þegar þetta var rætt. En ritstjórinn er farinn að dragast aftur úr fræðilegu umræðunni, segir því sem minnst og hefur lítt til mála að leggja – nema benda á. 


spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir