Lekum strandveiðibát bjargað

0
72

Strandveiðirbáturinn í togi á eftir Björgu. Ljósmynd/Landsbjörg

Áhöfn björgunarskips Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Bjargar á Rifi, var kölluð út laust fyrir klukkan tvö í dag vegna strandveiðibáts sem leki hafði komið að.

Báturinn var þá staddur rétt vestur af Snæfellsnesi, utan við Öndverðanesvita.

Þyrla frá Landhelgisgæslunni var einnig kölluð út. Nærstaddir bátar komu skipverjanum til aðstoðar og var hægt að dæla sjó úr bátnum og komast að mestu í veg fyrir lekann. Þá var aðstoð þyrlu afturkölluð, að því er segir í tilkynningu frá Landsbjörg.

Björgunarskipið Björg kom að bátnum skömmu síðar og rétt fyrir klukkan þrjú var hann kominn í tog og Björg lagði af stað áleiðis til hafnar á Rifi.

Ekki er ljóst hvers vegna leki kom að bátnum og skipverjann sakaði ekki.