Sara Nowak, 42 ára kona, lést af slysförum aðeins fimm klukkustundum eftir að hún var viðstödd útför eiginmanns síns, Louis Nowak. Nowak-hjónin voru búsett í Wisconsin í Bandaríkjunum og varð slysið þann 1. apríl síðastliðinn.
Söfnun hefur verið hrundið af stað á vefnum GoFundMe fyrir sex börn þeirra hjóna sem þau láta eftir sig. Nú þegar hafa 20 þúsund Bandaríkjadalir, um 2,5 milljónir króna, safnast.
Í umfjöllun Washington Post kemur fram að Louis, sem var 58 ára, hafi látist af völdum krabbameins í lifur þann 19. mars síðastliðinn. Uppgötvaðist krabbameinið aðeins fjórum mánuðum áður en hann lést.Louis var mikill áhugamaður um bíla og ákvað nágranni þeirra hjóna að spóla í nokkra hringi á bifreið sinni honum til heiðurs eftir útförina. Sara steig upp í bifreiðina en ekki vildi betur til en svo að nágranninn missti stjórn á bifreiðinni og endaði ofan í skurði. Létust bæði nágranninn og Sara í slysinu.
Sara og og Louis höfðu verið gift í sex ár og áttu þau samtals sex börn úr fyrri samböndum.