1 C
Grindavik
28. nóvember, 2020

Lestur landsmanna hefur aukist í heimsfaraldri

Skyldulesning

Landsmenn hafa bæði lesið og hlustað meira á bækur í ár en í fyrra samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar. Að meðaltali las hver þátttakandi í könnuninni 2,5 bækur á mánuði samanborið við 2,3 bækur í fyrra. Þá eru þeir sem segjast eingöngu eða oftar lesa á íslensku en öðru tungumáli fleiri nú en í fyrri könnun.

Þetta er meðal niðurstaðna lestrarkönnunar Miðstöðvar íslenskra bókmennta sem birtar voru í dag á degi íslenskrar tungu. Í tilkynningu um niðurstöður könnunarinnar segir að áhrif heimsfaraldursins séu merkjanleg hvað varðar lestrarvenjur, fólk á öllum aldri lesi meira núna en fyrir heimsfaraldurinn.

Sérstaklega hefur orðið aukning í notkun hljóðbóka. „Afkastamestu lesendurnir eru konur og barnafjölskyldur. Yfirgnæfandi meirihluti telur opinberan stuðning við bókmenntir mikilvægan og greinilegt er að bókaauglýsingar, umfjöllun í fjölmiðlum og samtal um bækur hefur mikil áhrif á hvað fólk les,“ segir í tilkynningunni.

Samandregnar niðurstöður könnunarinnar eru eftirfarandi:

·Meðalfjöldi lesinna bóka var 2,5 bækur á mánuði í samanburði við 2,3 bækur að meðaltali í lestrarkönnun í fyrra.

·Hlustun á hljóðbækur er meiri nú en í könnun frá fyrra ári.

·Svarendur með tvö eða fleiri börn á heimili lásu fleiri bækur en þeir sem ekki eru með börn á heimilinu og sami hópur notar mest bókasöfn.

·Heldur fleiri lesa nú eingöngu eða oftar á íslensku en öðrum tungumálum.

·Um 80% svarenda telur mikilvægt að þýða nýjar erlendar bækur á íslensku.

·Aldurshópurinn 18 til 35 ára les oftar en aðrir aldurshópar á öðru tungumáli en íslensku.

·Mikill meirihluti þjóðarinnar eða um 76% svarenda telja mikilvægt að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi.

·Yfir helmingur svarenda fær hugmyndir að lesefni úr auglýsingum, umfjöllun í fjölmiðlum og frá vinum og ættingjum.

·Um helmingur landsmanna nýtir sér þjónustu bókasafna.

·18% þeirra sem lesa hefðbundnar bækur, lesa meira núna en fyrir Covid-19, sem og 24% fólks á eftirlaunaaldri. Og 36% þeirra sem nota hljóðbækur hlusta meira núna en fyrir Covid-19.

Innlendar Fréttir