Liðhlaupi Pútíns lýsir öllu saman: Segir hann ekki nota farsíma og ekki fara á netið – DV

0
107

Gleb Karakulov, 35 ára öryggisvörður sem starfaði fyrir Vladimír Pútín Rússlandsforseta en gerðist liðhlaupi, hefur nú leyst frá skjóðunni um ýmsa hluti sem varða forsetann umdeilda.

Karakulov var stjórnandi í Rússnesku öryggisþjónustunni, FSO, áður en hann flúði land og fór til Tyrklands eftir innrás Rússa í Úkraínu. Í viðtali við rússneska fréttamiðilinn Dossier, sem Daily Mail vitnar til, varpar hann ljósi á ýmsa hluti varðandi Pútín Rússlandsforseta en talið er að Karakulov sé æðsti rússneski liðhlaupinn sem flúið hefur land eftir innrásina í Úkraínu. Honum tókst að flýja þegar hann var sendur til Kasakstans að undirbúa heimsókn Pútíns þangað.

Haldinn ofsóknaræði Í viðtalinu segir Karakulov meðal annars að Pútín sé haldinn ákveðnu ofsóknaræði og óttist mjög um öryggi sitt. Segir hann að Pútín haldi sig að mestu í sprengivörðu byrgi af ótta við banatilræði og þá sé hann enn skíthræddur við að fá Covid-19.

Þá segir hann að Pútín noti aldrei Internetið eða farsíma af ótta við að Vesturveldin hafi komið fyrir hlerunarbúnaði og notast hann eingöngu við „fjarskiptabox“ til að eiga samskipti við umheiminn, eða þá sem hann getur ekki rætt við augliti til auglits.

Karakulov hafði starfað fyrir öryggisþjónustuna frá árinu 2009 áður en hann yfirgaf Rússland. Hann er talinn hafa lekið upplýsingum um það fyrir skemmstu að Pútín notaðist eingöngu við brynvarða járnbrautarlest á ferðum sínum um Rússland af ótta við að forsetaflugvél hans yrði skotinn niður.

„Allan þann tíma sem ég gegndi þessu starfi sá ég hann aldrei með farsíma. Hann notar ekki netið og fær eingöngu upplýsingar frá fólki úr sínum innsta hring,“ segir Karakulov og bætir við að Pútín stjórnist því af þeim upplýsingum sem hann er mataður á af liðsmönnum leyniþjónustunnar og því sem hann sér í ríkisreknum rússneskum fjölmiðlum.

Kallaður Stjórinn og logandi hræddur við COVID-19 Karakulov segir að öryggisverðir hans ávarpi hann sem „Stjórann“ og þeir líti á hann sem einhvers konar Guð.

Þegar hann var spurður hvort Pútín væri í einangrun vegna kórónuveirunnar svaraði hann því játandi.

„Já, hann er það. Við erum enn með forseta sem einangrar sig. Við þurftum að fylgja ströngum reglum um sóttkví í tvær vikur fyrir viðburði, jafnvel þó þeir stæðu einungis yfir í 15-20 mínútur.“

Engin alvarleg veikindi Orðrómur hefur verið á kreiki um að Pútín glími við alvarleg veikindi og sé jafnvel dauðvona vegna krabbameins. Karakulov segist ekki hafa neinar upplýsingar um það og bætir við að þetta hafi verið rætt af kollegum hans í öryggisþjónustunni.

„Ef hann glímir við einhvern heilsubrest þá tengist það aldri hans. Hann glímir sennilega við eitthvað en það er ekkert sem er of alvarlegt, held ég,“ sagði hann.

Í viðtalinu kallaði Karakulov eftir því að aðrir liðsforingjar og starfsmenn forsetans kæmu fram opinberlega og lýstu Pútín sem þeim stríðsglæpamanni sem hann er. „Þið búið yfir upplýsingum sem hafa ekki komið fram opinberlega. Stigið fram, styðjið mig og þið hjálpið rússneskum almenningi að komast að öllum sannleikanum.“

Karakulov segir að Pútín sé alveg sama um alla nema sig og þá sem standa honum næstir. „Líf þitt eða fjölskyldu þinnar skiptir hann engu máli. Með því að rífa menn frá fjölskyldum sínum og senda þá til slátrunar í fullvalda Úkraínu sýnir hann að honum er alveg sama um það sem er að gerast í okkar landi og í Úkraínu,“ sagði hann og bætti við að þetta muni halda svona áfram þar til einhver segir eitthvað eða gerir eitthvað.

„Þetta stríð þarf að enda og það er kominn tími til að rjúfa þögnina.“