6 C
Grindavik
2. mars, 2021

Liðið ár þungt fyrir Hafnasamlag Norðurlands

Skyldulesning

Pétur Ólafsson, hafnarstjóri Hafnasamlags Norðurlands, segir samdrátt í tekjum vegna fjarveru skemmtiferðaskaipanna setja strik í reikningin og bindur vonir við að 2021 verði betra ár fyrir samlagið en 2020.

„Við höfum bjartsýnina að leiðarljósi og vonum svo sannarlega að allt fari að óskum í ár,“ segir Pétur Ólafsson, hafnarstjóri Hafnasamlags Norðurlands. Horfurnar eru góðar, fyrir liggja bókanir allt að 230 skemmtiferðaskipa til Akureyrar, í Hrísey og Grímsey á komandi sumri. Liðið ár reyndist Hafnasamlaginu líkt og mörgum öðrum þungt í skauti, tekjurnar voru allt að 430 milljónum króna minni en áætlað var enda harla fá skemmtiferðaskip á siglingu það árið.

Pétur segir að samdráttur í tekjum vegna fjarveru skemmtiferðaskipanna setji vissulega strik í reikninginn. „Við höfum unnið að heilmiklum endurbótum á bryggjum okkar, bætt og aukið við en fyrst og fremst miðuðu okkar framkvæmdir að því að gera aðstöðu fyrir viðskiptavini hafnarinnar sem besta. Það er ljóst að nú þrengir að um sinn,“ segir Pétur.

230 skip væntanleg í sumar

Góðu fréttirnar er þær að aldrei áður hafa fleiri skemmtiferðaskip bókað komu sína en einmitt nú í sumar, en þau verða alls 227. Farþegar verða um 200 þúsund talsins ef allir mæta. Skipin koma flest til hafnar á Akureyri, 171 skip er væntanlegt þangað, til Grímseyjar koma 42 skip og 14 skip til Hríseyjar.

Skemmtiferðaskipin hafa verið mikilvæg tekjulind. Eitt stærsta skip af þeim toga kom til Akureyrar árið 2018.

mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Komur skemmtiferðaskipa eru mjög þýðingarmiklar fyrir hafnir á landsbyggðinni, þær eru stór hluti af tekjum þeirra. Það eru tæplega 20 hafnir víða um land sem taka á móti þessum skipum, þeim hefur fjölgað á liðnum árum,“ segir Pétur.

Gerir hann ráð fyrir að eitthvað færri farþegar verði um borð fyrsta árið en þeim fari svo fjölgandi á ný þegar heimsfaraldri verði lokið. „Ísland er vinsæll áfangastaður meðal skipafélaganna og það selst iðulega fljótt upp í ferðir hingað til lands. Farþegar eru áhugasamir um land og þjóð, náttúruna og strjálbýlið. Það er almennt mikil ánægja með þær ferðir hingað,“ segir Pétur.

20 þúsund tonna afli

Aðrir tekjustofnar Hafnasamlagsins eru á pari við meðalár, segir Pétur. Vöruflutningar til og frá Akureyri til að mynda voru svipaðir að magni og verið hefur liðin ár. Fiskiskip lönduðu um 20 þúsund tonna afla og er bróðurpartur þess magns frá skipum Samherja til vinnslu hjá Útgerðarfélagi Akureyringa. „Landanir fiskiskipa eru gríðarlega mikilvægar fyrir okkar rekstur, ekki síður en komur skemmtiferðaskipanna,“ segir Pétur. Skipakomur hafa einnig mikla þýðingu fyrir þau fyrirtæki sem veita þjónustu í landi.

Helstu verkefni sem unnið er að á vegum Hafnasamlagsins um þessar mundir tengjast rafmagnsmálum, en við slík verkefni er m.a. unnið í smábátahöfninni í Sandgerðisbót auk smábátahafnanna á Svalbarðseyri, Hjalteyri, Hrísey og Grenivík. Eins er verið að vinna við rafmagn við Tangabryggju sem nýtast mun minni skemmtiferðaskipum í framtíðinni.

Það er óþægilega mikið frost, sögðu þeir Haukur og Valdimar, starfsmenn Finns ehf., er þeir unnu við smábátahöfnina í Sandgerðisbót á miðvikudag í fimbulkulda. Verkið er unnið fyrir Hafnasamlag Norðurlands.

mbl.is/Margrét Þóra

Pétur segir umræðu í gangi bæði hér á landi og eins á alþjóðavísu um hver stefnan eigi að vera varðandi rafmagnstengingar við hafnir og hversu umfangsmiklar þær eigi að vera. Um sé að ræða mjög dýrar framkvæmdir til að koma til móts við þarfir stærstu skipanna og það sé ekki á allra færi að standa undir þeim. Hann bendir einnig á að framfarir séu í gangi varðandi orkugjafa skipanna og því þurfi að vega og meta hversu mikið á að leggja í framkvæmdir af þessu tagi.

Torfunefsbryggja endurnýjuð

Til hefur staðið um skeið að laga umhverfi Torfunefsbryggju. Fyrirhugað er að færa bryggjuna utar sem nemur um 16 til 20 metrum, m.a. til að skapa dýrmætt svæði í hjarta bæjarins. Pétur segir að ef allt gangi að óskum í ár verði efni í framkvæmdina pantað næsta haust og hafist handa við verkefnið vorið 2022. Stefnt verði að því að ljúka því ári síðar eða vorið 2023.

Innlendar Fréttir