lik-grofust-upp-i-kirkjugardi-a-madagaskar-i-miklu-ovedri

Lík grófust upp í kirkjugarði á Madagaskar í miklu óveðri

Fellibylurinn Batsirai gekk yfir Madagaskar aðfaranótt sunnudags og varð að minnsta kosti 20 manns að bana. Eignatjón er mikið. Tæplega 50.000 manns neyddust til að yfirgefa heimili sín vegna hamfaranna.

Vindhraðinn var 165 km/klst þegar Batsirai skall á Madagaskar, sem er í Indlandshafi, á laugardagskvöldið. Vindhviður mældust allt að 235 km/klst. Tré rifnuðu upp með rótum og fjöldi bygginga eyðilagðist.

Auk vindsins fylgdi mikil rigning fellibylnum og er reiknað með að það rigni áfram næstu daga þrátt fyrir að óveðrið sé að mestu gengið niður. Þessar miklu rigningar munu leiða til flóða að sögn veðurstofu landsins.

Í lok janúar fór annar fellibylur yfir Madagaskar og varð tæplega 60 manns að bana.

Veðurhamurinn var slíkur að í bænum Mahanoro á austurhluta eyjunnar sópuðu öldur líkum upp úr kirkjugarði en kirkjugarðurinn er töluvert frá sjó.

Bærinn Mananjary lagðist nær algjörlega í rúst í óveðrinu og telja íbúar að allt að 95% bygginga séu ónýtar.


Posted

in

,

by

Tags: