Í apríl árið 1943 fundu fjórir unglingspiltar, sem voru í leit að eggjum í Hagley-skógi rétt fyrir utan borgina Birmingham í Bretlandi, það sem þeir töldu vera hauskúpu af dýri.
Var hauskúpan innan í stóru, holu heslitré. Þegar að piltarnir drógu upp hauskúpuna út sáu þeir að ekki var um hauskúpu af dýri að ræða, kúpan var klárlega af manneskju. Það var enn hár á höfði hennar og auk þess nokkrar tennur.
Enn fremur var í trénu flaska og og par af kvenmannsskóm. Þar sem táningarnir vissu að þeim var harðbönnuð eggjaleit í skóginum, settu þeir allt aftur ofan í tréð og héldu heim á leið, ákveðnir í að segja engum neitt til að lenda ekki í vandræðum.
Allir voru þeir í losti og sá yngsti þeirra gat ekki stillt sig um að segja foreldrum sínum frá fundinum sem eðlilega létu lögreglu vita.
Tréð sem Bella fannst í Fíngerð, dökkhærð kona án handar
Þegar grafið var nánar ofan í trjástofninn kom í ljós beinagrind auk fleiri persónulegra muna á við giftingarhring. Enga áletrun var að finna innan í hringnum. Konan hafði verið fíngerð, dökkhærð, með töluvert skakkar tennur og hafði silkidúk verið troðið í munn hennar. Það vantaði á hana höndina en hún fannst um tíu metra frá trénu.
Meinafræðingur ályktaði að kona hefði verið látin í um 18 mánuði. Líkami hennar hafði enn verið heitur þegar hann var settur í trjábolinn, sem þýddi að hún var þá annaðhvort enn á lífi eða nýlátin. Hafði líkið stirðnað innan í trénu.
Seinni heimsstyrjöldin geisaði á þessum tíma og hafði hún sett það sem mætti kalla eðlilegt líf flestra úr skorðum. Fjöldi manns var á vergangi út um alla Evrópu og lögreglu grunaði að konan væri þýsk eða hollensk vegna þeirra muna sem fundust hjá beinagrindinni. Auk þess hafði engin tilkynning borist um týnda konu í Bretlandi sem líktist á nokkurn hátt kvenmanninum í trjábolnum.
Röntgenmyndir voru teknar af tönnum konunnar en það reyndist einnig enda í blindgötu að nota þær til leitar.
Og smám saman gleymdist konan í trénu.
Áletrunin WHO PUT LUEBELLA DOWN THE WYCH-ELM
Næstum tveimur árum síðar, um jólin árið 1944, hafði einhver krotað stórum stöfum með krít á vegg, ekki langt frá þar sem hún fannst. Þar stóð: WHO PUT LUEBELLA DOWN THE WYCH-ELM, sem þýða mætti Hver setti Luebellu ofan í álmtréð.
Reyndar eru heslitré og álmtré það lík að margir rugla þeim saman, sem líklegast útskýrir krotið.
Og smám saman fóru fleiri krot að birtast á víða um Birmingham sem flest voru nákvæmlega eins orðuð og öll með sömu rithönd. Ýmist stóð WHO PUT LUEBELLA DOWN THE WYCH-ELM eða einfaldlega HAGLEY WOOD BELLA.
Höfundur krotsins fannst aldrei og ef viðkomandi hafði einhverjar upplýsingar um konuna eða hvernig dauða hennar bar að, hafði hann aldrei samband við lögreglu.
Hver var Bella?
Enn þann dag í dag veit enginn hver Bella í trjábolnum var en það hafa komið fram fjöldi kenninga í gegnum tíðina.
Ein kenningin er að morðið tengist einhvers konar djöflatrú en það var ævaforn siður að skera hönd af meintum galdrakvendum og grafa um tíu metra frá líkum þeirra. Hönd Bellu fannst einmitt um tíu metra frá líkinu. Silkiklúturinn í munni hennar minnti einnig á galdratrú þar sem það hafði einnig tíðkast til forna að setja slíka klúta upp í meintar nornir.
Í ofanálag eru álmtré álitin hafa dýpri merkingu en önnur tré þegar kemur að alls kyns hjátrú og galdratrú.
Aðrir vilja ekki heyra slíka vitleysu, segja galdrasöguna hafa verið búna til af leyniþjónustu Breta þar sem Bella hafði verið þýskur njósnara, send til að njósna um vopnaverksmiðjur en það var fjöldi þeirra í og við Birmingham. Ástæðan fyrir að hendi Bellu fannst þetta langt frá líkinu, hafi einfaldlega verið að dýr skógarins hafi dregið hana til.
Aðrir segja hana verið gagnnjósnara Breta og hafði sella þýskra njósnara í Birmingham komist að því, myrt og falið í trénu.
Njósnir?
Enn önnur kenningin er að hún hafi verið kona að nafni Clara Bauerle, kærasta tékknesks nasista, Josef Jakobs, sem náðist í Bretlandi eftir að hafa laumast inn í landið með hjálp fallhlífar. Sú var þekkt kabarett söngkona sem hafði oft komið fram í Bretlandi fyrir stríð. Clara vann fyrir Gestapo og átti að hitta kærasta sinn í Bretlandi.
Parið náði aldrei að hittast í Bretlandi en þótt að fjöldi greina um Bellu segi að Clara hafi horfið á sama tíma er það rangt því það er til myndefni af henni syngja allt til 1942. Því má bæta við að Clara var rúmlega 180 sentímetrar á hæð en Bella í trénu aðeins 150 sentimetrar.
Með vinsælli kenningum er að Bella hafi verið vændiskona, sem einmitt gekk undir nafninu Bella, og vann á götum Birmingham. Hún hvarf einmitt árið 1941 þótt að hvarfið hafi ekki verið tilkynnt lögreglu fyrr en þremur árum síðar. Það gæti skýrt krotið með nafninu ,,Bella.”
Einnig hefur verið haldið fram að fórnarlambið hafið verið verksmiðjustúlka sem var nauðgað og sett í tréð til að hún segði ekki frá glæpnum. Svo eru aðrir sem fullyrða að hún hafi verið það sem þá var kallað sígauni, eða flökkukona, sem hafi lent upp á kant við hóp sinn og því verið látin hverfa. Sá hópur var og er lítt hrifinn að aðkomu yfirvalda.
Mynd gerð eftir líkamsleifar Bellu sýnir hvernig hún hafi húgsanlega litið út í lifanda lífi. Út um allt internet
Árið 1953 steig fram kona að nafni Una Mossop og fullyrti að fyrrverandi maður hennar, Jack Mossop, hefði játað fyrir henni að hafa farið út að drekka með hollenskum vinu sínum árið 1941. Á kránni hefðu þeir hitt konu sem varð svo drukkin að hún missti meðvitund á meðan þeir óku henni heim.
Hefði þeim þótt til skammar að kona drykki sig rænulausa og ákváðu að troða henni ofan í tréð til að kenna henni lexíu. Ætluðu þeir síðan að sækja hana daginn eftir en reyndist hún þá látin.
Jack þessi Mossop hafði verið á stofnun fyrir geðsjúka þar sem hann talaði ekki um annað en að kona horfði á hann úr tré. En Jack lést áður en líkið af Bellu fannst og verður saga Unu að teljast vafasöm þar sem hún beið í meira en áratug með að segja sögu sína.
Kenningarnar um Bellu eru endalausar og það þarf ekki langa leit á netinu til að finna síður og þræði helgaðar Bellu.
Og það er aldrei að vita nema að sannleikurinn komi í ljós einn góðan veðurdag, ekki síst eftir því sem tækninni fleygir fram.