Sandfell SU hefur landað mestum þorskafla það sem af er fiskveiðiár meðal krókabáta. Lítið er eftir af þorskkvótanum. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson
Nú eru aðeins rétt rúm 32 þúsund tonn eftir af óveiddum þorski af þeim 166 þúsund tonnum sem var úthlutað við upphaf fiskveiðiárs. Jafnframt eru eftir rétt rúmlega tíu þúsund tonn af ýsu. Þriðjungur af úthlutuðum karfakvóta er eftir eða um 8.116 tonn og heil 46.815 tonn af ufsakvóta.
Þetta má lesa úr aflastöðulista Fiskistofu.
Það sem af er fiskveiðiári hefur Sandfell SU landað mestum þorski meðal krókabáta, alls 1.109 tonn. Næst á eftir fylgir Tryggvi Eðvarðs SH með 1.066 tonn, svo Vigur SF með 1.002 tonn, Hafrafell SU með rúm 984 tonn og fimmta mesta þorskafla hefur Indriði Kristins BA borið að landi, rúmlega 978 tonn.
Meðal þeirra sem veiða í aflamarkskerfinu er Björg EA aflahæst þegar kemur að þorksi og hefru skipið landað rúmlega 3.704 tonnum af tegundinni á fiskveiðiárinu. Á eftir fylgir Drangey SK með tæp 3.545 tonn, svo Kaldabkur EA með rúm 3.291 tonn, Björgúlfur EA með tæp 3.179 og að lokum Málmey SK sem hefru landað tæpum 3.072 tonnum.
Aðeins þessi fimm skip hafa landað meira en þrjú þúsund tonnum af þorski á fiskveiðiárinu.