3 C
Grindavik
28. febrúar, 2021

Lítið um óæskileg efni í sjávarfangi

Skyldulesning

Niðurstöður af sívirkri vöktun á óæskilegum efnum í ætum hluta sjávarfangs á Íslandi fyrir árið 2020 liggja nú fyrir. Rannsókn, gagnasöfnun og útgáfa skýrslu vegna vöktunarinnar er í höndum Matís ohf.

Niðurstöður ársins 2020 sýna að öll sýni af sjávarafurðum til manneldis voru vel undir hámarksgildum ESB fyrir þrávirk lífræn efni, varnarefni og þungmálma. Sophie Jensen, sérfræðingur í efnagreiningum hjá Matís, er verkefnastjóri vöktunarinnar.

Í samtali við 200 mílur segir Sophie sýni vera tekin árlega af sjávarfangi sem náð hefur markaðsstærð. Sýnin eru rannsökuð m.t.t styrks þungmálma, blýs, kvikasilfurs, kadmíns, arsens og tins, sem og styrks þrjátíu varnarefna og niðurbrotsefna þeirra, og einnig díoxíns, díoxínlíkra PCB- og PCB-efna sem eru ekki díoxínlík. Flest eru þetta þrávirk efni sem brotna ekki niður í umhverfinu heldur stigmagnast í fæðukeðjunni og enda í fólki. Þá eru mörg þessara efna fitusækin og safnast upp í fitu fiska. Því er t.d. mikilvægt að vakta grálúðu sem nær tiltölulega háum aldri og hefur fituríkt hold. Sophie segir að þungmálmarnir blý og kvikasilfur mælist mjög lágir og mælist oftast nær undir greiningarmörkum. Styrkur þungmálma í íslensku sjávarfangi hefur haldist nokkuð stöðugur og lágur í gegnum tíðina að sögn Sophie.

„Það sem stundum hefur verið vandamál á Íslandi er kadmín í t.d. kræklingi. Í þetta skipti mældist það lágt,“ segir Sophie. Hún segir að hár kadmínstyrkur sem áður hefur verið til vandræða á Íslandi stafi af náttúrulegu háu kadmínmagni í jarðveginum hér á landi. „Kræklingur vex þar sem er fjara, þar sem ferskvatn rennur gjarnan til sjávar og kadmín þar með,“ segir Sophie.

Innlendar Fréttir