4 C
Grindavik
21. apríl, 2021

Litlu bresku krúttin sem sigruðu hjörtu okkar eru ekki lengur börn

Skyldulesning

Barnastjörnum skýtur reglulega upp á himininn enda eiga börnin auðvelt með að vinna hjörtu okkar. Nú birtast okkur þrjár breskar barnastjörnur sem fullorðnir menn í nýjum, vinsælum þáttum.

Segja má að þættirnir The Queen‘s Gambit hafi heldur betur slegið í gegn en þeir verma sem stendur fyrsta sæti vinsældalistans á íslenska Netflix-inu. Þættirnir fjalla um hina ungu Beth Harmon, sem stefnir á að verða krýnd heimsins besti skákmaður, en á sama tíma glímir hún við andleg veikindi og misnotar vímugjafa. Þættirnir þykja afar vandaðir og fyrirtaks skemmtun, en þeir hafa þó einnig vakið athygli fyrir tvo leikara sem þar bregður fyrir.

Litli Sam

Thomas Brodie-Sangster vann hug og hjörtu fólks er hann lék hinn unga Sam í jólamyndinni Love Actually. Í myndinni hafði Sam nýlega misst móður sína en það var þó annað sem hélt fyrir honum vöku á nóttunni og það var ást hans á skólasystur sinni sem hann sá ekki sólina fyrir. Afréð hann því að læra á trommur til að ná að ganga í augun á henni. Útkoman var hin krúttlegasta og nýtur myndin enn mikilla vinsælda um hátíðirnar.

En Sangster leikur einmitt í The Queen‘s Gambit og ráku margir upp stór augu að þekkja þar hinn unga Sam úr Love Actually sem fullorðinn mann, en hann er 30 ára í dag. Þó hann sé orðinn sautján árum eldri er hann enn auðþekkjanlegur og þykir enn búa yfir sama æskuljómanum og hann gerði forðum. Telja margir að hann hafi nánast ekkert elst og líti því enn út fyrir að vera 13 ára drengur og því hafi verið undarlegt að velja hann í þetta „fullorðins“- hlutverk.

Sangster hefur þó ekki setið auðum höndum á milli Love Actually og Queen‘s Gambit og hefur meðal annars farið með hlutverk í þáttunum vinsælu Game of Thrones sem og með hlutverk í kvikmyndunum Nanny McPhee og Maze Runner-myndunum.

Vondi fósturbróðirinn

Sangster er þó ekki eina barnastjarnan sem bregður fyrir í The Queen‘s Gambit en þar má líka líta leikarann Harry Melling. Melling varð þekktur fyrir hlutverk sitt í kvikmyndunum um galdrastrákinn Harry Potter. Þar fór Melling með hlutverk Dudley Dursley, hins óviðkunnanlega og ofdekraða fósturbróður Harry Potters, sem þótti ekkert betra en að gera uppáhaldsgaldrastráknum okkar lífið leitt. Melling naut því lítilla vinsælda utan kvikmyndanna, þar sem margir áttu erfitt með að skilja hann frá persónu Dursleys. Tíminn vann þó með honum og eftir því sem hann hefur elst, þeim mun minna svipar honum til Dursleys. Það voru því líklega færri sem þekktu Melling en Sangster, þegar þeim brá fyrir í The Queen‘s Gambit.

Myndin um strák

Aðrir nýlegir þættir sem njóta mikilla vinsælda eru þættirnir The Great. En það eru gamanþættir sem byggja lauslega á ævi Katarínu miklu, keisaraynju Rússlands. Þar leikur leikarinn Nicholas Hoult stórt hlutverk.

Hoult er, líkt og Sangster og Melling, fyrrverandi, bresk barnastjarna, en hann heillaði okkur upp úr skónum í ljúfsáru kvikmyndinni About a Boy, þar sem hann fór með hlutverk hins unga Marcus, sem vingast við hinn fullorðna Ned sem leikinn er af Hugh Grant. The Great er þó langt í frá fyrsta verkefni Hoult frá því að hann lék í About a Boy. Hann hefur meðal annars leikið í Mad Max: Fury Road, Clash of the Titans, X-Men: First Class og uppvakningarómantíkinni Warm Bodies.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir