Liverpool leikur til úrslita í ensku bikarkeppninni í knattspyrnu eftir sigur gegn Manchester City í undanúrslitum keppninnar á Wembley í Lundúnum í dag.
Leiknum lauk með 3:2-sigri Liverpool sem leiddi með þremur mörkum gegn engu í hálfleik en Sadio Mané skoraði tvívegis fyrir Liverpool í leiknum.
Liverpool komust yfir strax á 9. mínútu með marki Ibrahima Konaté úr hornspyrnu. Sadio Mané kom svo Liverpool í draumastöðu á 17. mínútu þegar hann tæklaði boltann af Zack Steffen markmanni City og endaði boltinn í netinu, glórulaus mistök hjá Steffen.
City-menn voru arfaslakir allan fyrri hálfleikinn og krónaði Sadio Mané það með glæsilegu marki á lokamínútu fyrri hálfleiksins eftir flottan undirbúning Thiago og fóru Liverpool með 3-0 forystu til búningsklefana.
City byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og skoraði Jack Grealish strax mark eftir flottan undirbúning Gabriel Jesus. Síðan slökktist aðeins á leiknum en bæði lið fengu sín færi en náðu ekki að nýta þau.
City-mnn gerðu ekki breytingu fyrr en á 83. mínútu þar sem Mahrez kom inn fyrir Jesus. Mahrez lagði síðan upp mark á 90. mínútu fyrir Bernardo Silva en það var einum of seint og vann Liverpool leikinn 3:2. Sanngjarn sigur Liverpool en hetjuleg barátta City-manna í seinni hálfleik.
Liverpool mætir annaðhvort Chelsea eða Crystal Palace í úrslitum keppninnar á Wembley í Lundúnum hinn 13. maí en Chelsea og Crystal Palace mætast í hinu undanúrslitaeinvíginu á Wembley á morgun.