0 C
Grindavik
24. febrúar, 2021

Liverpool skoraði sjö

Skyldulesning

Roberto Firmino og Sadio Mané á Selhurst Park í dag. …

Roberto Firmino og Sadio Mané á Selhurst Park í dag. Þeir voru báðir á meðal markaskorara.

AFP

Englandsmeistarar Liverpool unnu 7:0-stórsigur á Crystal Palace í 14. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á Selhurst Park í dag og verða á toppi deildarinnar um jólin.

Gestirnir settu tóninn strax á þriðju mínútu er Takumi Minamino skoraði sitt fyrsta deildarmark fyrir félagið eftir sendingu frá Trent Alexander-Arnold. Sadio Mané kom svo Liverpool í 2:0 um tíu mínútum fyrir leikhlé með hnitmiðuðu skoti eftir stoðsendingu Roberto Firmino. Brasilíumaðurinn kom sér svo sjálfur á blað rétt fyrir hálfleik eftir fyrirgjöf Andrew Robertson.

Fyrirliðinn Jordan Henderson kom svo Liverpool í 4:0 snemma í síðari háfleik, á 52. mínútu, með laglegu skoti utan teigs og Roberto Firmino bætti við öðru marki sínu á 68. mínútu, Alexander-Arnold með enn eina stoðsendinguna.

Egyptinn Mohamed Salah, sem byrjaði leikinn á varamannabekknum, rak svo smiðshöggið á stórsigurinn með tveimur mörkum undir lok leiks. Það fyrsta úr skalla í kjölfar hornspyrnu á 81. mínútu og svo aftur með skoti utan teigs þremur mínútum síðar.

Liverpool er nú með 31 stig á toppnum eftir 14 leiki, sex stigum á undan Tottenham sem á leik til góða. Crystal Palace er í 12. sæti með 18 stig.

Innlendar Fréttir