Þann 24. júlí á síðasta ári fannst fatahönnuðurinn Kathryn Marie Gallagher, 35 ára, látin í svefnherberginu í íbúð sinni á Lower East Side í New York. Engin ummerki voru um að hún hefði verið beitt ofbeldi og andlátið þótti mjög dularfullt þar til á föstudaginn þegar lögreglan kom með óvænta tilkynningu. Í henni kom fram að Gallagher hefði ekki látist fyrir tilviljun, hún var myrt. The Guardian skýrir frá þessu.
Fram kemur að svo virðist sem andlát hennar tengist fjölda afbrota, þar sem fíkniefni komu við sögu, í borginni.
Niðurstaða krufningar var að Gallagher hefði látist af völdum bráðrar eitrunar sem orsakaðist vegna neyslu á fentanýli, parafluorofentanýli og etanóli.
Lögreglan telur að eitrað hafi verið fyrir henni og að hugsanlega tengist eitrunin stórri þjófnaðarbylgju tengdri fíkniefnum. Það er að einhver hafi eitrað fyrir henni til að stela frá henni.
Lögreglan veitti ekki miklar upplýsingar um málið á föstudaginn en sagði þó að enginn hafi verið handtekinn vegna málsins og rannsókn málsins haldi áfram.
Fentanýl tröllríður nú bandaríska fíkniefnamarkaðnum en efnið er mjög ávanabindandi og sterkt. Það er talið hafa valdið tveimur þriðju hlutum þeirra rúmlega 100.000 dauðsfalla sem urðu þar í landi á síðasta ári vegna ofneyslu fíkniefna að sögn The Guardian.