1 C
Grindavik
17. janúar, 2021

Loftfimleikafólk sem féll til jarðar fær 6 milljarða í bætur

Skyldulesning

Bandaríska fyrirtækið Feld Entertainment, sem á meðal annars hringleikahúsið Ringling Brothers and Barnum & Bailey hefur samþykkt að greiða níu fjöllistamönnum jafnvirði 6,7 milljarða króna fyrir slys sem átti sér stað árið 2014.

Um var að ræða fjölskyldu-sýningu á Rhode Island, þar sem tjald féll og fjöllistafólkið birtist hangandi í loftinu, að því er virtist á hárinu. Eftir nokkrar sekúndur féllu hinir átta svífandi loftfimleikamenn hins vegar niður og ofan á dansara sem stóð beint fyrir neðan.

Fallið var um tíu metrar.

Allir fjöllistamennirnir slösuðust alvarlega en enginn lífshættulega. Hins vegar var bataferlið langt og strangt og sumir munu ennþá þurfa að sækja læknisþjónustu og endurhæfingu.

„Þetta var upphæð sem öllum okkar megin hugnaðist; þetta var sanngjörn upphæð og þetta var réttlát upphæð að okkar mati,“ sagði Zachary M. Mandell, lögmaður listafólksins, við New York Times.

Hann sagði að í sumum tilvikum hefði verið um að ræða meiðsl sem myndu hafa varanleg áhrif á líf fólks og að skaðabæturnar yrðu nýttar til að greiða kostnað.

Lögmaðurinn sagði ljóst að nauðsynlegar varúðarráðstafanir hefðu ekki verið gerðar þegar sýningin fór fram en bandaríska vinnueftirlitið (OSHA) komst að þeirri niðurstöðu að slysið hefði mátt rekja til rangrar notkunar á svokölluðum karabínum.

Þá benti ekkert til þess að upphengibúnaðurinn hefði verið yfirfarinn og prófaður af sérfræðing áður en hann var notaður í atriðinu.

Innlendar Fréttir