Loftslagsbreytingar í hitabeltinu geta dregið úr kaffiuppskeru – DV

0
138

Loftslagsbreytingarnar eru farnar að hafa þau áhrif að oftar er tíðarfarið þannig að kaffiuppskera er minni en reikna mætti með við eðlilegar aðstæður. Þessi þróun hefur átt sér stað síðustu fjóra áratugi. Minni kaffiuppskera, þýðir hærra verð. Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til að áhrif loftslagsbreytinganna á kaffiræktun muni halda áfram að draga úr kaffiuppskerunni. The Guardian skýrir frá þessu.

Vísindamenn rannsökuðu áhrif ýmissa loftslagsþátta, til dæmis hitastigs, úrkomu og raka á kaffirækt í 12 helstu kaffiræktarlöndum heims á árunum 1980 til 2020.

Rannsóknin hefur verið birt í vísindaritinu PLOS Climate. Í henni kemur fram að tíðni „loftslags hættu“, sem hefur áhrif á gróðurvöxt, hafi aukist í öllum löndunum á þeim fjórum áratugum sem rannsóknin náði til. Fimm af sex verstu árunum voru frá 2010 til 2020.

Kjörhitinn fyrir ræktun tveggja helstu kaffitegundanna, arabica og robusta, er 18 til 22 gráður og 22 til 28 gráður.

Vísindamennirnir komust að því að frá 1980 til 2020 kom oftar fyrir að of kalt væri í veðri á ræktunarsvæðunum. Samt sem áður er heildarstaðan sú að of heitt er á öllum ræktunarsvæðunum. Segja vísindamennirnir að meirihluti ræktunarsvæðanna upplif aldrei of köld tímabil.

Dr Doug Richardson, aðalhöfundur rannsóknarinnar, sagði að vísindamennirnir séu „nokkuð vissir“ um að skiptin úr köldu og blautu yfir í heit og þurr skilyrði sé afleiðing loftslagsbreytinganna.