4 C
Grindavik
18. apríl, 2021

Loftslagsmarkmið Katrínar „billegt kosningaloforð“

Skyldulesning

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spyr hvort Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur séu ekki ósamstíga þegar kemur að loftslagsmálum og hvort Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, væri nokkuð reiðubúinn til þess að fjármagna markmið í loftslagsmálum sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti í morgun.

„Kemur til greina, hæstvirtur fjármálaráðherra, að stjórnarflokkarnir kjósi einfaldlega með breytingartillögu Samfylkingarinnar við fjárlög, um aukin framlög til loftslagsmála, svo einhver raunverulegur möguleiki sé á að við getum efnt þetta? Eða er þetta einungis billegt kosningaloforð úr forsætisráðuneytinu?“ spurði Logi á Alþingi í dag.

Eftir þrjú ár í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks kynnir forsætisráðherra ný markmið í loftslagsmálum. Í stað þess að draga losun saman um 40%, sem hefur þótt metnaðarlítið, er nú stefnt að 55% samdrætti,“ sagði Logi og bætti við: 

„Við upphaf 2. umr. fjárlaga í dag liggur hins vegar fyrir að þessi nýju áform hæstvirts forsætisráðherra eru ófjármögnuð, einungis 0,1% aukning af landsframleiðslu til umhverfismála, við þekkjum það, og svo sannarlega er ekki gert ráð fyrir þessum nýju markmiðum í fjárlögum. 

Ég spyr því einfaldlega: Er ríkisstjórnin ekki heldur ósamstiga ef hæstvirtur fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins er ekki tilbúinn til að fjármagna markmið hæstvirts forsætisráðherra og formanns Vinstri grænna í fjárlögum?

Lamdi frá sér

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, var næstur í pontu á eftir Loga og sagði að núverandi ríkisstjórn hafi sýnt skýran vilja til þess að gera vel í loftslagsmálum.

Hann sagði breytingartillögu Samfylkingarinnar við fjárlög upp á 20 milljarða króna út í hött. Fara mætti aðrar leiðir að því að ná markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum eins og að koma á ívilnunum fyrir fyrirtæki í einkageiranum.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er ekki alveg sannfærður um að í rúmlega 1.000 milljarða fjárlögum þurfi að bæta við 1 milljarði í þennan málaflokk til að árangrinum megi ná. Það sem við eigum að gera er að skoða hvort við getum forgangsraðað rúmlega 1.000 milljörðum þannig að þessi eini milljarður að meðaltali á ári á tíu árum fari til þessara verkefna. Það eru margar leiðir að því markmiði, eins og ég sagði áðan, m.a. að koma með ívilnanir fyrir einkageirann og það frumvarp er að koma núna til þingsins.

Innlendar Fréttir