Það er mat dómsmálaráðuneytisins og ríkislögreglustjóra að nákvæmar upplýsingar um fjölda skotvopna í eigu lögreglunnar falli undir lykilupplýsingar varðandi viðbragðsgetu lögreglu. Ekki sé því rétt að birta slíkar upplýsingar opinberlega „þar sem það geti haft afdrifaríkar afleiðingar, stofnað öryggi ríkisins í hættu og haft áhrif á öryggi lögreglumanna.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í svari Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn Arndísar Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur um kaup á vopnum og varnarbúnaði í aðdraganda leiðtogafundar Evrópuráðsins sem haldin var í Reykjavík í maí síðastliðnum. Guðrún var ekki dómsmálaráðherra þegar fundurinn fór fram. Þá sat Jón Gunnarsson, flokksbróðir hennar, í því embætti.
Þar er þó upplýst um að alls hafi verið keypt vopn fyrir 165 milljónir króna fyrir leiðtogafundinn. „Þau vopn sem keypt voru voru einkum Glock G-17 9x19GEN5 NS 9 mm skammbyssur og hálfsjálfvirkar 9 mm MP5A5 og MP5KSF einskotsbyssur. […] Þá voru tvær aðrar tegundir vopna keyptar til að styrkja sérsveit ríkislögreglustjóra.“
Lögregla keypti líka ýmsan annan búnað vegna öryggisráðstafana sem tengdust fundinum. „Hjálmar voru keyptir fyrir um 47 milljónir króna frá TST Protection LTD. Lögregluvesti voru keypt frá fyrirtækjunum Lindnerhof og Hiss fyrir tæpar 56 milljónir króna. Keypt var gas fyrir u.þ.b. 5,5 milljónir króna.“
Unnið er að lokauppgjöri á kostnaði vegna öryggisgæslu á fundinum. Gert er ráð fyrir að endanlegt kostnaðarmat liggi fyrir á næstu vikum.
Heildarkostnaður um tveir milljarðar Það mat ráðuneytisins og ríkislögreglustjóra að það sé ekki rétt að birta nákvæmlega upplýsingar um byggir, samkvæmt svarinu, á breyttum forsendum hvað varðar þjóðaröryggi. „Staðan í öryggis- og varnarmálum Evrópu hefur tekið miklum breytingum frá því í febrúar 2022 og það er mat embættis ríkislögreglustjóra að verði slíkar upplýsingar gerðar opinberar geti það haft neikvæð áhrif á öryggi ríkisins. Þá má minnast á það að undanfarin misseri hefur orðið umtalsverð fjölgun brota á Íslandi þar sem hnífum er beitt og vopnatilkynningum til lögreglu hefur fjölgað verulega. Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra hefur alvarlegum ofbeldisbrotum og vopnuðum útköllum lögreglu og sérsveitar lögreglu fjölgað verulega síðustu ár. Má sem dæmi nefna að fjöldi útkalla þar sem sérsveit vopnast vegna eggvopna hefur nærri fjórfaldast frá árinu 2016.“
Þá sé einnig rétt að benda á að umhverfið á Íslandi hefur breyst hvað vopnaburð og skotvopn varðar, en mikil fjölgun hafi „orðið í innflutningi hálfsjálfvirkra og sjálfvirkra skotvopna sem flutt hafa verið inn á grundvelli safnaraleyfis.“
Í júní var birt svar þáverandi utanríkisráðherra við fyrirspurn Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins, um kostnað við leiðtogafundinn. Þá sagði að endanlegur raunkostnaður myndi liggja fyrir á „næstu vikum“ en að áætlaður heildarkostnaður við fundinn væri um tveir milljarðar króna.
Kjósa
5
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.
Athugasemdir