Atriðið er nánast eins og tekið úr kvikmynd. Lögreglustjóri og þrír undirmenn hans grínast með að þeir þurfi að losa sig við tvo blaðamenn af því að þeir eru þreyttir á rannsóknarblaðamennsku þeirra. Einn segist þekkja leigumorðingja, annar segist vita hvar sé hægt að grafa lík. Þeir hlæja allir óafvitandi að samtal þeirra var tekið upp og að upptökunni yrði fljótlega lekið til dagblaðsins þar sem umræddir blaðamenn starfa.
En þetta er ekki atriði úr kvikmynd, heldur raunveruleiki.
Samtalið átti sér stað 6. mars í McCurtain County í Oklahoma og var síðan birt af staðardagblaðinu The McCurtain Gazette-News.
Kevin Stitt, ríkisstjóri úr röðum Repúblikana, krefst þess nú að lögreglumennirnir verði reknir úr starfi. AP skýrir frá þessu.
„Mér er brugðið og ég er leiður yfir að heyra svona hryllileg ummæli frá starfsfólki McCurtain County. Hatursræða af þessu tagi á ekki heima í Oklahoma og allra síst hjá þeim er falið að vernda samfélagið okkar,“ sagði Stitt í fréttatilkynningu.
Á upptökunni heyrist lögreglumaður segja að hann þekki „tvo-þrjá leigumorðingja“ sem séu „mjög hljóðlátir“. Sami maður kvartar síðan yfir að ekki megi hengja svart fólk, sem að hans mati hefur „meiri réttindi en við“.
Bruce Willingham, útgefandi staðardagblaðsins, segir að lögreglustjórinn og undirmenn hans séu brjálaðir út í blaðið fyrir gagnrýna umfjöllun þess um mann sem lést í haldi lögreglunnar.