Lokað fyrir bíla og strætó í nágrenni leiðtogafundarins Stórum hluta miðborgarinnar verður lokað fyrir umferð ökutækja, þar á meðal strætisvagna, á meðan á leiðtogafundi Evrópuráðsins stendur í Hörpu eftir tvær vikur. Reikna má með umferðartöfum á öllu höfuðborgarsvæðinu vegna fundarins.
Von er á tugum leiðtoga Evrópuríkja á leiðtogafund Evrópuráðsins sem verður haldinn í Reykjavík dagana 15. 17. maí. Af öryggisástæðum verður lokað fyrir umferð ökutækja um götur í kringum Hörpu á meðan. Næsta nágrenni Hörpu verður alfarið lokað almenningi.
Lokunin tekur gildi klukkan 23:00 mánudagskvöldið 15. maí. Henni verður aflétt klukkan 18:00 miðvikudaginn 17. maí.
Gangandi og hjólandi geta ferðast um lokunarsvæðið fyrir utan næsta nágrenni ráðstefnuhússins. Engar almenningssamgöngur verða heldur innan svæðisins. Strætó ekur eftir breyttum akstursleiðum á meðan á lokuninni stendur, að því er kemur fram í Facebook-færslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Hjól rafhlaupahjólaleigna verða ekki virk innan lokunarsvæðisins.
Íbúum sem eiga lögheimili og bílastæði innan lokunarsvæðisins er bent á að hafa samband við utanríkisráðuneytið. Von er á upplýsingum um ráðstafanir fyrir hreyfihamlaða.
Vegagerðin segir að gera megi ráð fyrir umferðartöfum um allt höfuðborgarsvæðið vegna aksturs sendinefnda í lögreglufylgd til og frá Keflavíkurflugvelli og Reykjavíkurflugvelli dagana sem fundurinn er haldinn. Gert er ráð fyrir að áhrifin verði mest síðdegis á þriðjudeginum og miðvikudeginum.