2 C
Grindavik
15. maí, 2021

Lygilegar raunir Hjalta í Túnis – „Það var fangelsi á borðinu“

Skyldulesning

Hjalti Ómarsson var á ferð um Túnis árið 2007 þegar hann var færður til yfirheyrslu og sakaður um njósnir. Hann segir söguna á Twitter sem hefur slegið í gegn.

Hjalti, framkvæmdarstjóri Retor Fræðslu, segir í samtali við DV að hann ferðist mjög mikið og ferðalög séu ástríða áhugamál hjá honum. En á þessum tíma, árið 2007, hafi hann verið mjög óreyndur ferðamaður.

Hjalti Ómarsson. Aðsend mynd.

Hér kemur sagan:

„Eftir fjóra daga á ströndinni ákváðum við að leigja bíl í þrjá daga. Planið var mjög óljóst, við keyrðum landið þvert og meðal annars alla leið að Sahara eyðimörkinni. Á öðrum degi erum við komin einhvers staðar á milli Monastir og Sfax, við vorum í raun hvergi þegar ég stöðva bílinn.

Ég sá sem sagt asna og hélt að ég gæti tekið geggjaða mynd af honum. Ég var algjör byrjandi í ljósmyndun og gerði mér ekki grein fyrir því að ég hafði hvorki búnaðinn né getuna til að taka myndina sem ég sá í huganum.

En myndina tók ég, svo nokkrar í viðbót. Fljótlega áttaði ég mig á því að myndirnar voru allar vonbrigði og stefndi aftur í átt að bílnum.

Þegar ég gerði mig reiðubúinn að aka af stað tók á móti okkur fullbúin lögreglusveit. Hún tók allt af okkur og færði okkur í hús sem var 300 metra á bak við asnann. Þar vorum við sett í reykfyllt herbergi með frekar ógnvekjandi manni.

Herbergið og aðstæður voru allar í takt við það sem ég hef séð í bíómyndum. Við vorum á lögreglustöð og þau höfðu okkur grunuð um að vera njósnarar.

Mynd Hjalta frá Túnis, 2007.

Af hverju ætti ég að vera að taka myndir af asna? Augljóslega hlyti ég að vera að taka myndir af lögreglustöðinni.

Þeir horfðu ítrekað á vegabréfið og héldu að þetta væri „fake“, þeir höfðu aldrei séð Íslending, og hvað þá Íslending og Pólverja saman að ferðast. Þeir voru sannfærðir og við vorum í alvöru vandræðum. Þetta var mikið fram og til baka og stressperlur fyrir allan peninginn.

Það var fangelsi á borðinu.

Eftir rúmlega tveggja tíma yfirheyrslu, áttuðu þeir sig á því hvað við (ég), vorum vonleysislega vitlaus og slepptu okkur með skammir. Algjör rússíbani, en ágætis minning eftir á.

Og já, myndin af asnanum. Partur af dílnum við að sleppa úr yfirheyrslu var að eyða öllum þessum stórkostlega misheppnuðu myndum. Og því situr sagan ein eftir, án mynda.“

Hjalti á þó mynd af úlfalda frá ferðinni.

Í samtali við DV segir Hjalti að þetta hafi verið mikið ævintýri og hann hafi lært mikið í þessu ferðalagi. „Það er allt gott og blessað að hafa gaman af ferðalögum, ég var svo ótrúlega óharðnaður (lesið vitlaus) ferðamaður, það þarf að bera virðingu fyrir menningu þess lands sem við ferðumst til. Ég lærði það í Túnis,“ segir hann.

„Ekki það, mín bestu ferðalög eru yfirleitt einmitt einhvern veginn svona. Fara af stað og skipuleggja ekki of mikið, leyfa hinu og þessu að ráðast á meðan það er að gerast. Þá gerist oft eitthvað óvænt og skemmtilegt.“

Að lokum deilir Hjalti með okkur þessari mynd hér að neðan. „Ég var mjög upptekinn af umferðarmenningunni, sem var mjög tæp,“ segir hann.

Hjalti hafði mikinn áhuga á umferðarmenningunni. Aðsend mynd.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir