Carlos Chacon, lýtalæknir, beið í rúmar þrjár klukkustundir með að hringja í neyðarlínuna þegar 36 ára kona, sjúklingur hans, fékk hjartaáfall þegar hún var í aðgerð á lýtalæknastofu hans. Hann bannaði starfsfólki sínu einnig að hringja í neyðarlínuna. Megan Espinoza fékk hjartaáfall þegar hún var í aðgerð á lýtalæknastofu Chacon, Divino Surgery Center í Bonita í Kaliforníu. Hún var í brjóstastækkun þegar þetta gerðist í desember 2018.
Saksóknarar hafa nú ákært Chacon fyrir morð. Hann var í fyrstu ákærður fyrir manndráp af gáleysi en í síðustu viku breyttu saksóknarar ákærunni í morðákæru. Segja þeir að rannsókn lögreglunnar hafi leitt í ljós að Chacon hafi skilið Espinoza eftir eina inni á skurðstofunni á meðan hann sinnti fjórum öðrum sjúklingum. Hann hafi síðan bannað starfsfólki sínu í að hringja í neyðarlínuna fyrr en eftir þrjár klukkustundir.
Hann er einnig ákærður fyrir að hafa látið hjúkrunarfræðing, sem hafði ekki hlotið tilskilda menntun, sjá um svæfinguna á Espinoza sem og að hafa logið að eiginmanni Espinoza þegar hann hringdi til að kanna með hana.