Lýtalæknir grunaður um að hafa myrt lögfræðing – DV

0
149

Bandaríski lýtalæknirinn Tomasz Kosowski hefur verið kærður fyrir morðið á lögfræðingnum Steven Cozzi en lík hans hefur ekki fundist. Sky News segir að saksóknarar segi að við leit á heimili Kosowski og í bíl hans hafi fundist blóð, rafbyssa, sprauta með lamandi efni og sterkt límband.

Cozzi hefur verið saknað síðan á þriðjudag í síðustu viku en þá hvarf hann frá lögmannsstofunni þar sem hann starfaði.

Lík hans hefur ekki fundist en lögreglan hefur blóð, myndbandsupptökur og önnur sönnunargögn sem tengja Kosowski við hvarf Cozzi og dauða hans að sögn saksóknara.

Kosowski neitar sök.

Lögreglan segir að veski, sími og lyklar Cozzi hafi fundist í lögmannsstofu hans auk mikils magns blóðs inni á baðherberginu.

Upptökur öryggismyndavéla sýna einhvern aka bíl Kosowski að lögmannsstofunni daginn sem hann hvarf. Ökumaðurinn fór inn í húsið og var með bakpoka og hanska og stóran kassa.

Tæpum tveimur klukkustundum virðist sami maður hafa komið út en í öðrum fötum. Hann dró stóran vagn á eftir sér og á honum var eitthvað í poka eða hulið teppi. Þetta var greinilega þungt og átti hann erfitt með að draga þetta að bílnum.

Bíllinn sást á eftirlitsmyndavél nærri heimili læknisins hálfri klukkustund eftir að honum var ekið frá lögmannsstofunni. Á upptökunni sést það sem virðist vera lík í poka eða hulið teppi á palli bílsins.

Cozzi var lögmaður fyrrum starfsmanns Kosowski og samstarfsmanns í langvarandi málarekstri.