-3 C
Grindavik
22. janúar, 2021

Má ekki gefa skýrslu fyrir luktum dyrum

Skyldulesning

Brunarústir við Bræðraborgarstíg.

Landsréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms um að hafna kröfu karlmanns, sem er ákærður fyrir manndráp og tilraun til manndráps vegna íkveikju í húsnæðinu að Bræðraborgarstíg 1, um að þinghöld í málinu yrðu háð fyrir luktum dyrum á meðan hann og geðlæknar gæfu skýrslu við aðalmeðferð málsins.

Málinu var skotið til Landsréttar með kæru 26. nóvember síðastliðinn.

Fram kom í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember að ríkar ástæður verði að vera fyrir hendi til að vikið verði frá meginreglu stjórnarskrárinnar um að þinghöld í dómsmálum skuli vera opin.

„Þótt það sé yfirleitt þungbært fyrir ákærða og aðra þá sem mál  varðar að þinghöld í sakamálum séu háð fyrir opnum tjöldum nægir það eitt og sér ekki til þess að þeim verði lokað, heldur verður eitthvað meira til að koma svo að það verði gert,“ segir í niðurstöðunni. „Samkvæmt því er þeirri kröfu hafnað að þinghöld málsins þar sem ákærði eða geðlæknar gefi skýrslu skuli háð fyrir luktum dyrum.“

Innlendar Fréttir