1.3 C
Grindavik
6. febrúar, 2023

„Maður er manns gaman“

Skyldulesning

Eldri borgarar í styrktarþjálfun.

Eldri borgarar í styrktarþjálfun. mbl.is/Hari

Íslendingar eru orðnir ansi þreyttir á fréttum af Covid-19, enda hefur faraldurinn staðið í rúmlega tvö ár. Í dag fær meirihluti smitaðra væg einkenni og því mat yfirvalda að landsmenn snúi aftur til eðlilegs lífs. Þó er talið að viðkvæmustu hópar landsmanna þurfi enn að fara varlega, þ.e. fólk með undirliggjandi sjúkdóma og elstu borgarar landsins. En þá vaknar spurningin um hvernig faraldurinn sé að bitna á þeim sem elstir eru í þjóðfélaginu, sem kannski búa einir, eða í íbúðum fyrir aldraða eða á vistheimilum?

Gísli Páll Pálsson forstjóri Grundarheimilanna segir að hann sé sannfærður um að það hafi verið rétt ákvörðun að banna heimsóknir á hjúkrunarheimilum, sem hafa mörg verið meira og minna í einangrun í tvö ár. „Það var mitt mat og annarra stjórnenda á Grundarheimilunum að minni hagsmunir yrðu að víkja fyrir meiri.“ Hann bætir við að á þessum fyrstu vikum faraldursins 2020 hafi verið sögur frá Ítalíu um mjög hátt dánarhlutfall og þá hafi engin bóluefni verið komin. „Ég efast ekki um það að við hefðum misst miklu fleiri vistmenn ef við hefðum ekki tekið jafn hart á þessu, því erlendis vorum við að heyra dánartölur á sambærilegum heimilum, sem voru á bilinu 10 til 20%.“

Hann bætir við að eftir að bóluefnin komu og bólusetningum fjölgaði var slakað á heimsóknarbanninu og heimsóknir voru leyfðar.

Gísli Páll segir að það sé mikilvægt að taka á málum af skynsemi, en á sama tíma sé mikilvægt að eldri borgarar geti notið lífsins. „Einmanaleiki er versti óvinur eldra fólks, og því var ömurlegt að hafa þurft að grípa til þessara aðgerða,“ en bætir við að staðan sé miklu betri í dag.

Sigríður Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur á fræðslu- og gæðasviði Grundar, tekur undir orð forstjórans og bætir við að í upphafi faraldursins hafi starfsfólk heimilanna farið í sjálfskipaða sóttkví og reynt að umgangast sem fæsta utan vinnustaðarins til að bera ekki smit inn á heimilin. „Auðvitað jókst einsemd þegar heimsóknarbann var sett á og enginn gat undirbúið sig, en fjölskyldur vistmanna voru mjög duglegar að koma sendingum á heimilin, fóru að skrifa bréf, hringja meira og jafnvel kaupa spjaldtölvur.“ Hún segir að síðustu mánuði hafi hræðslan við Covid minnkað þegar í ljós kom að veiran væri vægari núna. „Ég held að faraldurinn hafi kennt okkur að meta betur þessi mannlegu samskipti og samveruna,“ segir hún.

„Ég er fréttafíkill“

Sigmundur Indriði Júlíusson er búinn að vera á Litlu-Grund frá 2017, en hann er 88 ára gamall. „Við fluttum hingað ég og Ásrún, konan mín heitin, og vorum í tveggja manna herbergi þar til hún lést, en þá fékk ég eins manns herbergi á 4. hæð hérna á Litlu-Grund.“ Hann smitaðist af Covid-19 og var í einangrun í 7 daga, en segir að vissulega hafi sumir átt erfitt þegar heimsóknir voru ekki leyfðar. „Það bjargaði samt svo miklu hvað það var vel hugsað um okkur og maður fann sér alltaf eitthvað að gera.“ Sigmundur er lögblindur, en segist vera með sjónvarp inni á herberginu og hann hlusti á fréttir og góða þætti og svo er Rás 1 í miklu uppáhaldi. „Það var líka lesið fyrir okkur og mikið reynt að gera lífið sem best, en auðvitað fannst mörgum leiðinlegt að geta ekki farið niður í sal og hitta fólkið, þegar smit voru innanhúss.“ Sigmundur segist fylgjast mikið með fréttum og er með Morgunblaðið í tölvunni og getur þar hlustað á það í gegnum talgervil. „Ég er fréttafíkill og fylgist mjög vel með. Það er hræðilegt að heyra þessar fréttir frá Úkraínu og hvernig Rússar eru að fara með þjóðina og hvernig staðan er í heimsmálunum núna.“

Sigmundur Indriði Júlíusson.

Sigmundur Indriði Júlíusson. Ljósmynd/Aðsend

Una Halldórsdóttir býr í íbúð fyrir aldraða í Bolungarvík. Hún er fædd 1933 og verður því 89 ára á árinu. „Ég flutti í Hvíta húsið síðasta haust eftir að hafa búið í húsinu mínu hérna í Víkinni í 64 ár, en ég sótti um íbúðina þegar ég missi eiginmann minn, Geir Guðmundsson, árið 2018.“

Una segist hafa farið í sjálfskipaða sóttkví þegar fregnir af faraldrinum bárust, en segir að henni hafi þótt verst þessar síendurteknu fréttir af nýjum bylgjum veirunnar. „En maður þurfti bara að lifa með því,“ segir hún. Una er mikil félagsvera og hefur mikinn áhuga á fólki og sagnfræði. „Líklega hef ég haft þennan áhuga alla tíð,“ segir hún. „Ef maður rifjar ekki upp hlutina, þá falla þeir í gleymsku.“

Una Halldórsdóttir.

Una Halldórsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Fylgist með á Facebook

Una hefur nýtt sér tæknina til samskipta og víst að fáir jafnaldrar hennar eru jafn duglegir á Facebook og hún. „Ég eyði talsverðum tíma á Facebook og svo les ég Morgunblaðið í tölvunni líka, en Sólrún, dóttir mín aðstoðar mig ef einhver meiri tæknivandræði verða,“ segir hún hress.

Una smitaðist af Covid-19 fyrir stuttu og segir það hafa verið skrítna lífsreynslu. „Mér leið svolítið eins og Palla sem var einn í heiminum því ég heyrði í fólkinu fram á gangi en enginn kom inn.“ Núna er hún öll að hressast eftir veikindin og lífið heldur áfram sinn vanagang. „Við hittumst í safnaðarheimilinu hér uppi á þriðju hæð einu sinni í viku og syngjum og svo er föndrað niðri og á föstudögum eru myndasýningar. Þá er oft verið að sýna gamlar myndir úr Víkinni og það er mjög vel sótt og virkilega skemmtilegt.“

Una segir að þótt gott sé að fylgjast með í tölvunni, megi tæknin ekki koma í stað hefðbundinna samskipta. „Maður er manns gaman, og maður finnur það enn betur eftir þennan faraldur hvað það er dýrmætt að eiga í samskiptum við aðra.“

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir