9.3 C
Grindavik
25. september, 2022

„Maður er náttúrulega bara sveitastrákur frá Íslandi og kann ekkert að haga sér í þessu“

Skyldulesning

Karl Þormóðsson býr ásamt eiginkonu sinni í austurhluta Úkraínu í borginni Zhaporozhye. Rætt var við Karl í Morgunútvarpinu á Rás 2 en Karl var staddur í sprengjubyrgi þear rætt var við hann.

„Við erum í byrginu núna, það eru loftvarnarflautur í gangi núna sem byrjuðu fyrir svona fimm mínútum síðan. Annars erum við þokkalega vel sett hérna því gærdagurinn og nóttin var mjög róleg hérna,“ segir Karl í upphafi símtalsviðtalsins við Morgunútvarpið.

Byrgið sem um ræðir er staðsett í kjallaranum hjá Karli og eiginkonu hans. Aðspurður um það hversu oft þau þurfa að leita í byrgið segir Karl að það sé einu sinni til þrisvar á dag. „Þetta er nú frekar svona ömurleg tilfinning allt saman, maður þarf bara að láta sig hafa það. Svo reynir maður bara að halda í sínar venjulegu rútínu til að halda sönsum,“ segir hann.

„Það er ómögulegt að segja,“ segir Karl svo þegar hann er spurður hvað hann haldi að þau verði lengi í byrginu. „Þetta hefur verið yfirleitt verið frá svona 10 mínútum, korteri í upp undir klukkutíma en það á sjálfsagt eftir að versna þegar það líður á þennan djöfulgang af því eins og ég segi þá hafa þeir lítið verið að hafa sig frammi hérna ennþá.“

Zhaporozhye er staðsett á rauða svæðinu á kortinu – Mynd/Wikipedia

Ætlar sér að vera kyrr

Karl segir að ekki sé barist í borginni sjálfri að honum vitandi. „Það var aðeins hérna í fyrrakvöld út við flugvöllinn sem er hérna aðeins út fyrir borgina en það voru ekki einhverjar sprengjur þar eftir því sem ég best veit en að öðru leyti veit ég ekki til þess að það hafi  neitt verið hér,“ segir hann.

Þá er Karl spurður hvort hann ætli sér að flýja en því svarar hann neitandi. „Það er hvergi eldsneyti að fá á leiðinni og eins að fá eldsneyti hérna í borginni og ekki ætla ég að labba 200 og eitthvað kílómetra, það er alveg á kláru. Þannig við erum best sett hérna heima, öruggust að öllu leyti,“ segir hann.

Enginn leiðbeiningarbæklingur

Karl segir að honum finnist Úkraínumenn bera sig alveg ótrúlega vel miðað við aðstæður. „Náttúrulega reynir það sjálfsagt að bægja þessari hugsun frá sér eins lengi og mögulegt er því það er náttúrulega ekki til neinn leiðbeiningarbæklingur um hvernig maður á að haga sér í þessu,“ segir hann. „Mér sýnist samstaðan orðin alveg hreint gríðarlega mikil um allt land hérna núna.“

Þá segist hann sjálfur reyna að halda sér í sínum daglegu venjum til að hugsa ekki jafn mikið um ástandið. „Svo eins og ég segi, maður er náttúrulega bara sveitastrákur frá Íslandi og kann ekkert að haga sér í þessu.“

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir