2 C
Grindavik
15. janúar, 2021

Maður í haldi lögreglu vegna hótunarinnar

Skyldulesning

Katrínu var fylgt í varðskipið Tý þegar hótunin barst.

Karlmaður er í haldi lögreglunnar á Austurlandi grunaður um að hafa staðið að baki hótunum í garð Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi, staðfestir í samtali við mbl.is að vitað sé hvaðan hótanirnar komu og verið sé að ræða við manninn á lögreglustöðinni. Hann vill þó ekki staðfesta að maðurinn hafi verið handtekinn. Austurfrétt hefur birt sms-skilaboð sem maðurinn er sagður hafa sent.

Ríkislögreglustjóri sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að ekki væri talin hætta á ferðum vegna hótananna. Aðspurður segir Kristján þó að hótunin sé tekin alvarlega, eins og gildi um allar hótanir.

Spurður með hvaða leiðum hótunin barst segist Kristján ekki geta svarað því. „Það bárust upplýsingar til lögreglu um hótanir í garð forsætisráðherra. Þær upplýsingar voru hins vegar óstaðfestar. En það er verið að ræða núna við þann sem átti að hafa sent þær,“ segir Kristján. Hann segir lögreglu á Austurlandi hafa fengið veður af hótunum frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra en getur ekki sagt til um hvernig þær bárust til almannavarna.

Innlendar Fréttir