-3 C
Grindavik
22. janúar, 2021

Maðurinn minn er orðinn þunglyndur eftir að hann missti vinnuna

Skyldulesning

Kristín Tómasdóttir hjónabandsráðgjafi svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar Kristín spurningu lesanda sem hefur áhyggur af þunglyndum maka.

Kristín Tómasdóttir

Sæl, Kristín.

Maðurinn minn er búinn að vera atvinnulaus síðan í sumarbyrjun. Hann er vel menntaður og var alltaf vel liðinn í starfi en var sagt upp vegna samdráttar í tengslum við kórónufaraldurinn. Atvinnuleysið hefur lagst mjög þungt á hann og er þetta nýr veruleiki fyrir hann. Í sumar var hann duglegur að fara í göngutúra og sund, en hann er nú löngu hættur göngutúrunum og sundlaugar auðvitað lokaðar. Vegna tekjufallsins eru síðan frekari takmarkanir á hvað er hægt að gera til að létta lundina. Ég er nú orðin mjög áhyggjufull.

Ég og krakkarnir förum til skóla og vinnu á morgnana, ég vissi að hann væri farinn að sofa lengur á morgnana en stundum er hann enn í rúminu þegar ég kem heim úr vinnunni seinnipartinn. Hann reynir að gera lítið úr þessu, segist bara hafa aðeins lagt sig en ég held að hann sé oftar en ekki algjörlega aðgerðalaus yfir daginn.

Hvað get ég gert til að hjálpa honum, eða hvað getur hann gert til að hjálpa sjálfum sér þannig að þunglyndið gleypi hann ekki og hann verði ekki lengur vinnufær þegar fer að rofa til?

Erfið staða

Sæl! Æi, þetta er erfið staða sem því miður allt of margir eru að glíma við þessa dagana. Við munum vafalaust sjá meira af þessum afleiðingum COVID þegar fram í sækir og mættum sem kerfi og samfélag mæta þessum vanda með fleiri úrræðum.

Þetta hljómar eins og aðstæðubundið þunglyndi sem merkir að breytingar á aðstæðum ykkar gætu líka haft góð áhrif. Þú og krakkarnir farið út á morgnana en hann er ennþá heima. Gæti það breytt einhverju að búa til lítið virkniplan fyrir hann? Verkefni sem þarf að leysa heima fyrir? Heimsækja ættingja eða vini í sambærilegri stöðu? Atvinnuleit í klukkustund á dag?

Eins og þú segir þá hafa lokanir í líkamsræktarstöðvum, sundi og fleira gríðarleg áhrif á andlega líðan fólks í hans stöðu en sumt má samt ennþá til dæmis göngutúr eða bíltúr og mögulega gæti slíkt gert gæfumuninn fyrir hann.

Byrja á samtali

Fjárhagur, atvinnumál, heilsa og annað hefur vissulega áhrif á hamingju okkar og líðan. En ef þú spyrð hamingjusöm pör hvers vegna þau eru hamingjusöm þá er tíðasta svarið „vinátta“. Í þessu samhengi verð ég að viðurkenna að mér finnst gott að þú finnir fyrir áhyggjum, þú ert að velta fyrir þér hvað þú getur gert og hvernig þú getur verið til staðar. Það segir mér að þið eruð vinir, þú vilt honum vel og vilt vera til staðar. Nýlega hafa fræðin sýnt að parameðferð skilar sambærilegum árangri við meðhöndlun þunglyndis og kvíða og einstaklingsmeðferð. Þetta ýtir undir það að þið saman getið gert kraftaverk í þessum aðstæðum ef vilji er fyrir hendi.

Það er yfirleitt árangursríkt að byrja að leysa vanda með því að opna samtal. Ekki vera hrædd við að stinga á kýlið en það getur verið vandasamt að gera það vel í viðkvæmum aðstæðum sem þessum. Helsti parasérfræðingur í heiminum er málvísindakona. Það segir okkur að hvaða orð við notum, í hvaða samhengi og hvaða tóni getur skipt öllu máli upp á hvert samtalið leiðir. Þarna geta spurningar verið mjög voldugar. Í staðinn fyrir að fullyrða að maðurinn þinn sé orðinn þunglyndur og sofi heilu dagana þá gæti verið ráð að spyrja hann: „Hvernig líður þér?“, „Hvað þarftu svo þér líði betur?“, „Hvernig hjálp getur reynst þér vel?“, „Hvað get ég gert?“ Ekki hika heldur við að tala út frá þinni eigin líðan. Segðu honum að þú sért óörugg og áhyggjufull í hans garð og að þú viljir gjarnan að þið finnið út úr þessum aðstæðum saman. Um leið og við byrjum setningar á „mér líður… “ í stað „mér finnst… “ eða „þú ættir að…“, þá drögum við verulega úr líkum á varnarviðbrögðum frá hinum aðilanum.

Fylgifiskar atvinnumissis

Viðhorf ykkar til atvinnumissisins getur skipt sköpum varðandi framhaldið. Um þessar mundir erum við að glíma við náttúruhamfarir, ófyrirséðar og fordæmalausar aðstæður. Það er ekki við manninn þinn að sakast í hvaða stöðu þið eruð, heldur þessi skrítnu og lúmsku vá. Aftur á móti er algengur fylgifiskur atvinnumissis sjálfsgagnrýni og lágt sjálfsmat. Þú gætir því litið á það sem þitt hlutverk að minna manninn þinn á hvers vegna þessi staða kom upp, hvaða styrkleikum hann býr yfir og hvað þú sért stolt af honum. Nú reynir á hæfnina til þess að sjá glasið hálffullt frekar en hálftómt, enda getur atvinnumissir skapað ný tækifæri sem annars hefðu ekki komið upp. Er þetta tími til þess að fara í nám? Er þetta tíminn til þess að feta inn á aðrar atvinnubrautir? Gengur hann um með nýsköpunarhugmynd í maganum? Oft þurfum við aðstoð við að sjá ljósið og þar geta makar komið sterkir inn.

Ef þunglyndið fer að aukast, vanvirknin að vinda upp á sig og þú metur andlega heilsu hans veika, þá mæli ég hiklaust með því að þið leitið til sálfræðings eða heimilislæknis. Þessir aðilar eru einmitt ætlaðir fólki sem glímir við slíkan vanda og ekki að ástæðulausu, þau geta sannarlega hjálpað.

Mikið er maðurinn þinn heppinn að eiga þig að og ég er viss að með sameiginlegu átaki, breyttu viðhorfi, utanaðkomandi aðstoð og nýrri stefnu komist þið í gegnum þetta. Það sem drepur okkur ekki, það styrkir!

Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com.

Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.

Innlendar Fréttir