Mæðgur myrtar með öxi – Mágurinn handtekinn – DV

0
59

Þann 19. apríl fundust mæðgurnar Keisha Morrison, 45 ára, og Kelsey Morrison, sem var aðeins 9 ára, látnar á heimili þeirra í Roselle í New Jersey. Ættingjar þeirra segja að þær hafi verið myrtar með öxi þegar til deilna kom við mág Keisha. ABC7 NY skýrir frá þessu og hefur þetta eftir Atasha Scott, mágkonu Keisha.

Everoy J. Morrison, 44 ára, hefur verið handtekinn af ríkislögreglunni í Maryland vegna málsins. Hann er hálfbróðir eiginmanns Keisha og bjó í kjallaranum hjá þeim.

Hann var handtekinn í síðustu viku þegar lögreglan stöðvaði akstur hans í Maryland. Hann ók stolinni BMW bifreið. Hann bíður nú framsals til New Jersey.

Lögreglan hefur haldið spilunum þétt að sér varðandi morðin en ættingjar hafa tjáð sig við fjölmiðla og sagt að þeir hafi hvatt Keisha til að flytja úr húsinu því henni og börnum hennar hafi liðið illa þar.

Það var Gary Morrison, eiginmaður Keisha og bróðir Scott, sem fann mæðgurnar. Lík þeirra höfðu verið vafin inn í lök og falin undir rúmi. Hið meinta morðvopn var falið undir dýnu.