8 C
Grindavik
15. apríl, 2021

Mælt fyrir nýjum kosningalögum

Skyldulesning

Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis.

Mælt verður fyrir frumvarpi til nýrra kosningalaga í kvöld á Alþingi klárist dagskráin. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, lagði frumvarpið fram sjálfur og mælir fyrir í kvöld.

Í stórum dráttum snýst frumvarpið um einföldun kosningalaga og stjórnsýslu kosningamála, fjórir lagabálkar sem hingað til hafa gilt um kosningar á Íslandi verða að einum. Þó eru nokkrar breytingar á ýmsum ákvæðum sem löngum hefur verið deilt um.

Morgunblaðið tók saman helstu nýmæli þegar málið var lagt fram á þingi.

Stjórnsýsla einfölduð

Stjórnsýsla kosningamála verður samræmd og einfölduð. Landskjörstjórn verður falið viðameira hlutverk sem sjálfstæð stjórnsýslueining og verður miðlægt kosningavald. Yfirkjörstjórnir kjördæma verða lagðar niður. Þá tekur landskjörstjórn við hlutverki Hæstaréttar við forsetakjör og yfirstjórn kosningamála frá dómsmálaráðuneytinu.

Miðlæg vinnsla kjörskrár verður á höndum Þjóðskrár Íslands og skal notast við rafræna kjörskrá.

Þó að rafræn kjörskrá skuli verða meginreglan er ekki heimild fyrir rafrænum kosningum.

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar mun ekki geta hafist fyrr en öll framboð hafa komið fram. Framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu hefur oft verið gagnrýnd í gegnum tíðina og þá einkum þetta atriði. Einnig er kveðið á um póstkosningu þegar greidd eru atkvæði utan kjörfundar, sem er nýmæli.

Þá mun kjósandi eingöngu geta greitt atkvæði einu sinni í hverjum kosningum, annaðhvort utan kjörfundar eða á kjörfundi. Það er breyting frá því sem nú er.

Kjörstöðum lokað fyrr

Kjörstöðum verður lokað kl. 21 en ekki 22 eins og nú er, verði frumvarpið að lögum. Þá verða kjörseðlar stimplaðir áður en kjósandi leggur hann í kjörkassa. Þetta er lagt til til að koma í veg fyrir fölsun, sleppa bókhaldi um fjölda seðla í dreifingu og einfalda eftirlit kjörseðla.

Sveitarstjórnar- og forsetakosningum verður flýtt. Lagt er til að kosið verði um forseta fyrsta laugardag í júní í stað þess síðasta og að sveitarstjórnarkosningar fari fram annan laugardag í maí í stað þess síðasta.

Talning atkvæða mun fara fram í sveitarfélögum. Þannig verður hreppaflutningum með kjörkassa sleppt. Þar sem færri en 100 kjósendur eru á kjörskrá skal sameina talninguna með öðru sveitarfélagi.

Heimild er fyrir að flokkun og talning atkvæða geti hafist áður en kjörfundi lýkur. 

Aðstoð fyrir þau sem þurfa

Öllum sem þurfa verður tryggður réttur til aðstoðar við kosningu, hvort sem er vegna fötlunar, veikinda, elli eða af öðrum ástæðum. Þannig verður mismunun eftir fötlun hætt en áður var aðstoðin bundin við það skilyrði að þörf fyrir aðstoðina væri vegna „sjónleysis eða þess að honum [kjósanda] sé hönd ónothæf“. Þroskahjálp eru meðal þeirra sem hafa gagnrýnt þessi skilyrði.

Kosningaréttur Íslendinga með lögheimili erlendis breytist. Nú heldur fólk kosningarétti í átta ár eftir flutninga utan og sækir svo um endurnýjun til fjögurra ára í senn. Lagt er til að þessu verði breytt þannig að rétturinn haldist í 16 ár. Aftur á móti fellur hann niður að þeim tíma loknum og ekki verður hægt að endurnýja.

Innlendar Fréttir