-2 C
Grindavik
20. janúar, 2021

Máli Guðmundar Spartakusar vísað frá MDE

Skyldulesning

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur vísað frá máli Guðmundar Spartakusar Ómarssonar gegn íslenska ríkinu og hafnað að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Frá þessu er greint á vef Fréttablaðsins en Guðmundur Spartakus kærði íslenska ríkið til MDE í kjölfar sýknudóms Hæstaréttar yfir Sigmundi Erni Rúnarssyni, fjölmiðlamanni og þáverandi dagskrárstjóra Hringbrautar.

Krafði Guðmundur Sigmund um tvær milljónir króna í bætur vegna meintra meiðyrða í umfjöllun Hringbrautar árið 2016. Í umfjölluninni sagði meðal annars að Guðmundur væri valdamikill fíkniefnasali í Suður-Ameríku og að hann væri höfuðpaur eiturlyfjahrings.

Byggði umfjöllun Hringbrautar á fréttaflutningi RÚV um sama mál. Var byggt á því í dómi Hæstaréttar að Hringbraut hefði ekki haft neina ástæðu til að efast um að RÚV og annar fréttamiðill í Paragvæ hefðu gætt réttra viðmiða varðandi vandaða fréttamennsku við gerð frétta sinna. Engin efni væru því til þess að verða við kröfum Guðmundar Spartakusar.

Kæra Guðmundar Spartakusar til MDE byggði á því að brotið hefði verið á rétti hans til friðhelgi einkalífs. Í ákvörðun MDE er vísað til þess að allar fullyrðingar sem komu fram í umfjöllun Hringbrautar hafi byggt á staðreyndum, fyrir utan eina þeirra sem teldist gildisdómur.

Þá hefði verið vísað til heimilda á fullnægjandi hátt. Gildisdómur um að Guðmundur Spartakus væri sagður hættulegur hefði einnig verið studdur nægilegum heimildum að mati MDE til að teljast innan eðlilegra marka.

Guðmundur Spartakus gerði sátt við RÚV vegna fyrrnefndra frétta miðilsins um hann og greiddi RÚV honum 2,5 milljónir króna vegna málsins.

Innlendar Fréttir