Sadio Mané bjargaði stigi fyrir Liverpool þegar liðið heimsótti Englandsmeistara Manchester City í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á Etihad-vellinum í Manchester í dag.
Leiknum lauk með 2:2-jafntefli en Mané jafnaði metin fyrir Liverpool strax í upphafi síðari hálfleiks.
City byrjaði leikinn af miklum krafti og Kevin De Bruyne kom City yfir strax á 5. mínútu með föstu skoti, rétt utan teigs, sem hafði viðkomu í Joel Matip, varnarmanni Liverpool, og þaðan fór boltinn í netið.
Diogo Jota jafnaði metin fyrir Liverpool átta mínútum síðar eftir frábært spil Liverpool-manna.
Andy Robertson átti þá frábæra fyrirgjöf inn í vítateig City þar sem Trent Alexander-Arnold var mættur á fjærstöngina og hann lagði boltann út í teiginn á Jota sem skoraði af stuttu færi.
Gabriel Jesus kom City svo yfir á nýjan leik á 37. mínútu eftir frábæra fyrigjöf Joao Cancelo en Cancelo lyfti boltann á fjærstöngina á Jesus sem var gapandi frír og hann kom boltanum yfir Alisson í marki Liverpool og í netið.
Mané jafnaði svo metin þegar Mohamed Salah sendi hann í gegn en Mané lyfti boltanum meistaralega yfir Ederson í marki City og staðan orðin 2:2.
City-menn voru betri það sem eftir lifði leiks og Riyad Mahrez fékk tvö frábær færi til þess að tryggja City sigur.
Fyrst átti hann skot í stöng úr aukaspyrnu af 30 metra færi og á lokamínútum leiksins slapp hann einn í gegn og reyndi að vippa yfir Alisson í marki Liverpool. Boltinn fór hins vegar yfir markið og lokatölur í Manhcester 2:2.
City er áfram í efsta sæti deildarinnar með 74 stig en Liverpool fylgir fast á hæla þeirra með 73 stig.