4 C
Grindavik
18. apríl, 2021

„Mannfjandi“ sparkaði í litla hundinn hennar Þórunnar – „Mér er bara orðið illt í hjartanu eftir þetta“

Skyldulesning

Þórunn Kristín Snorradóttir, meðlimur í Facebook-hópnum Hundasamfélaginu, deildi í gær færslu þar sem hún sagði frá manni sem beitti hundinn hennar harkalegu og skelfilegu ofbeldi. DV fékk góðfúslegt leyfi hjá Þórunni til að fjalla um færsluna.

„Maðurinn sparkar í hann“

Þórunn fór með dverg-schnauzer hundinn sinn í göngutúr og segir frá því. Ég og hundurinn minn vorum að ganga á Reynis/Hólmsheiðinni og samkvæmt Reykjavíkurborg má lausaganga hunda vera þar nema ekki á göngustígum,“ segir Þórunn í færsluni. „Ég geng göngustíginn og hundurinn ýmist úti í móa og krossar veg og annað. Það er orðið núna rökkur og það kemur maður á móti okkur.“

Þórunn segir að hundurinn hennar hafi stokkið í átt að manninum og gelt en eftir að hún kallaði á hann þá hætti hundurinn að gelta og stoppaði. „Maðurinn sparkar í hann blótandi og öskrandi að þetta helvíti megi bara alls ekki vera hérna og við skulum hunskast í burtu,“ segir Þórunn. Hún segir að hundurinn hafi við þetta grátið og hlaupið til hennar.  „Ég segi við manninn hvað voðalega honum liði illa í hjartanu að þurfa að lumbra á litlu dýri. Hann strunsar framhjá okkur blótandi alveg mjög lengi.“

Þórunn spyr meðlimi hópsins hver hennar réttur sé í svona löguðu. „Nú tæknilega séð jú var hundurinn á göngustígnum en það er frekar erfitt að reyna að halda þeim af þeim ef maður þarf að ganga þá sjálfur,“ segir hún. „Mér er bara orðið illt í hjartanu eftir þetta.“

„Það er ótrúlega margt fólk sem hatar hunda á Íslandi

Margir svöruðu spurningu Þórunnar í hópnum. Einhverjir bentu á að hún gæti tilkynnt um dýraníð en það væri þó erfitt ef hún veit ekki hver maðurinn er. „Þessi maður er bara rugludallur og frekja. Það er ótrúlega margt fólk sem hatar hunda á Íslandi,“ segir einn meðlimur hópsins í athugasemdum. „Það er aldrei réttæltanlegt að koma svona fram við hund þetta er ekki ókurteisi þetta er ofbeldi,“ segir annar. „Svakalegt að lenda í svona mannfjanda, hann hefur engan rétt á því að meiða dýrið,“ segir síðan enn annar.

Í samtali við DV segir Þórunn að hún og hundurinn hafi mátt vera þarna. „Miðað við allar upplýsingar er lausaganga hunda leyfð allstaðar á þessu svæði nema á reiðstígum og bílagötum. Þarna eru bara slóðar sem ekki flokkast undir göngustíga þannig í sjálfu sér vorum við í 100% rétti.“

Innlendar Fréttir