-2 C
Grindavik
20. janúar, 2021

Manninum sem hótaði Katrínu sleppt

Skyldulesning

Katrínu var fylgt í varðskipið Tý eftir að hótunin barst.

Lögregla hefur rætt við manninn sem hótaði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Er það mat hennar að ekki sé ástæða til frekari aðgerða gagnvart honum eða viðbragða að öðru leyti. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.

Maðurinn, Jonathan Moto Bisagni, reyndist ekki vera á Seyðisfirði þegar hótanirnar áttu sér stað en í samtali við mbl.is sagði Jonathan að ástæða þess að hann hefði verið tekinn í hald lögreglu væri að hann hefði hringt í nokkra þingmenn og reynt að útskýra fyrir þeim stöðuna á Seyðisfirði.

Katrín var í skoðunarferð í Ferjuhúsinu á Seyðisfirði þegar boð bárust lögreglunni og var hún færð í fylgd sérsveitarmanns í varðskipið Tý. Um tíu mínútum síðar sneri hún aftur eins og ekkert hefði í skorist.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hótanir í garð kvenforsætisráðherra vekja athygli án þess þó að þær hafi nokkrar afleiðingar. Þann 1. febrúar 2012 var maður handtekinn fyrir að koma fyrir heimatilbúinni sprengju, sem reyndist afar viðavaningsleg, utan við Stjórnarráðið. Sagðist hann hafa gert það vegna óánægju með ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Manninum var síðar sleppt lausum og engin ákæra gefin út.

Í viðtali við DV stuttu síðar sagði maðurinn, Valentínus Vagnsson, að hann hefði ætlað að koma henni fyrir við heimili Jóhönnu en ekki fundið heimilisfangið.

Innlendar Fréttir