5.4 C
Grindavik
18. maí, 2021

María ósátt með opnu landamærin og spyr fyrir hverja þetta sé gert – „Óþolandi minni­máttar­kennd“

Skyldulesning

„Maður spyr sig, hvað er í gangi? Er hátt­virt ríkis­stjórn að kikna undan þrýstingi hags­muna­hópa? Að ætla að þakka þjóðinni fyrir vel unnin störf með því að opna landa­mærin enn frekar. Til að fá hingað, hvað…? 5.000 túr­ista því þeir muni bjarga þjóðar­búinu og fækka at­vinnu­lausum. Þetta eru eins og krakkar sem fá að opna pakka fyrir mat af því að þeir geta ekki beðið eftir jólunum. Fyrir hverja er þetta eigin­lega?“

Svona hefst pistill sem María Manda Ívarsdóttir, leiðsögumaður og listakona, skrifar en pistillinn birtist í Fréttablaðinu í dag. María er svo sannarlega ekki sátt með ástandið í kórónuveirufaraldrinum hér á landi og ákvarðanir sem stjórnvöld hafa tekið í þeim efnum. María gagnrýnir til að mynda þá ákvörðun að hleypa fólki inn í landið.

„Af því að við höfum sér­fræðinga í Kefla­vík sem greini hvort vott­orð sé falsað eða ekki. Vita þing­menn ekki að Kefla­vík eru ekki einu landa­mærin á eyjunni? Seyðis­fjörður er það líka þar sem Nor­ræna siglir. Síðan eru það tugir skemmti­ferða­skipa, sem bíða í start­holunum eftir að koma til Ís­lands í sumar og þau stoppa í Stykkis­hólmi, á Grundar­firði, Ísa­firði, Akur­eyri, Seyðis­firði, Djúpa­vogi, í Vest­manna­eyjum og Sunda­borgum. Höfum við nógu marga sér­fræðinga?“

Þá bendir María á að Icelandair sé ekki eina flugfélagið sem bíður í ofvæni eftir að fljúga hingað til lands. Þá er hún ekki svo viss um að lítill hluti ferðamanna muni bjarga Icelandair. „Þjóðin hefur haldið þessu flug­fé­lagi gangandi með beinum eða ó­beinum hætti eins lengi og ég man eftir. Við gerum það bara á­fram og löngu orðið tíma­bært að þjóðin fái hluta­bréf í pósti,“ segir hún.

„Drekkum mjólkina og fleytum rjómann ofan af síðar“

María segir þá að það geti vel verið að fólk falsi vottorð þrátt fyrir að það varði fangelsisvist. „Ég reikna nú með að Sig­ríður Ander­sen og Brynjar Níels­son rísi á aftur­lappirnar við þeirri per­sónu­legu frelsis­sviptingu ef fólk verður keyrt beint úr Kefla­vík inn á Litla­ Hraun. Nei, ætli við­komandi aðili verði ekki löngu kominn heim til sín þegar hann fær bréfið frá héraðs­dómi,“ segir hún.

Henni finnst það að leggja það fyrir þjóðina að hún verði frjálsari við það að opna landa­mærin vera barna­leg rök og segir þau hvorki vera sam­boðin Al­þingi né fólkinu í landinu. „Ef eitt­hvað er að skerða per­sónu­frelsi íbúa þessa lands þá eru það landa­mærin. Þetta vita allir! Ég skora á tví­eykið sem reis upp gegn sótt­varna­að­gerðum undir þeim slag­orðum að þau brytu á frelsi okkar að beina nú orðum sínum að hinni raun­veru­legu á­stæðu fyrir fjötrum þjóðarinnar. Koma að ein­hverju gagni og mæla gegn gjörningi þessum og hrein­lega loka landa­mærunum.“

María segir að „örfáir túristar“ séu ekki að fara að bjarga íslenskum efnahag né séu þeir að fara að minnka atvinnuleysi. „Óskiljan­leg draum­sýn eða ó­þolandi minni­máttar­kennd gagn­vart er­lendum ríkjum eða hrein sýndar­mennska, á kostnað frelsis og heil­brigðis þjóðarinnar. Drekkum mjólkina og fleytum rjómann ofan af síðar. Ef það er eitt­hvað sem kemur þjóð­fé­laginu á lappirnar þá eru það við sjálf, það er að segja ef við fáum frelsi til þess! Eins og haldið okkar fermingar­veislur, út­skriftir, brúð­kaup, af­mæli, í­þrótta­mót, úti­há­tíðir, árs­há­tíðir, ferða­lög og menningar­við­burði án takmarkana. Verið á pöbbnum kannski til 12 og farið í sturtu í ræktinni. Ein fermingar­veisla hefur marg­földunar­á­hrif út í þjóð­fé­lagið, efna­hag og at­vinnu­leysi. Svo ekki sé talað um hið marg­um­talaða geð­heil­brigði. “

„Ætlum við virki­lega að taka þessa á­hættu?“

Þegar líða fer að lokum pistilsins talar María um að einstaklingar sem hafa verið bólusettir eða fengið veiruna geti ennþá smitað út frá sér.  „Veiran lifir 24 tíma á efnum og jafn­vel lengur á málmum. Þetta hefur marg­oft komið fram. Verður far­angur, símar, mynda­vélar, skór og fatnaður þessa fólks sótt­hreinsaður? Þó svo að við­komandi ein­staklingar eigi ekki á hættu að fá veiruna sjálfir hljóta þeir að geta borið hana á sér eins og við hin og breska afbrigðið leggst þyngst á yngsta fólkið,“ segir hún.

„Er ekki vert að bíða með landa­mærin þangað til að kúfurinn af þjóðinni hefur raun­veru­lega verið sprautaður en ekki bara gamal­menni og heil­brigðis­starfs­menn? Hvað með fólkið okkar með undir­liggjandi sjúk­dóma? Eigum við bara að loka það inni meðan þessir ör­fáu túr­istar spranga um grundir? Talandi um jafn­ræði? Ætlum við virki­lega að taka þessa á­hættu? Eru í­búar til í fjórðu bylgju? Það þarf bara eitt smit.“

María botnar svo pistilinn með því að skora á þingmenn. „Ég skora á þing­menn að sýna okkur á­fram kjarkinn til að hlusta á ráð­leggingar sér­fræðinga sem hefur skilað okkur stór­kost­legum árangri og draga þetta óða­got til baka og þakka þjóðinni með raun­veru­legu frelsi.“

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir