María tekur við af Birni Sveinbjörns hjá NTC – Vísir

0
147

María tekur við af Birni Sveinbjörns hjá NTC María Greta Einarsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri fataverslunarinnar NTC. Hún tekur við af Birni Sveinbjörnssyni sem verður fjármálastjóri NTC. Hann hefur starfað sem framkvæmdastjóri félagsins síðan 2007.

Greint er frá stjóraskiptunum á vef Viðskiptablaðsins. María Greta, sem er betur þekkt sem Maya, er með margra ára reynslu í stjórnun, verkefnaumsjón, framleiðslu, starfsmannahaldi, markaðsmálum og innkaupum.

María hóf störf hjá fyrirtækinu árið 2000 sem verslunarstjóri Smash á Laugavegi. Síðar tók hún meðal annars þátt í opnun verslunarinnar Sautján Jeans á Laugavegi, kom að hönnun merkisins Xtra.is ásamt því að sjá um innkaup og daglegan rekstur verslana NTC til ársins 2005.

Árið 2006 flutti hún til London. Þar starfaði hún hjá tískuvörufyrirtækinu Arrogant Cat sem Sales Director og meðeigandi til ársins 2013.

Maya var ráðin aftur inn til NTC árið 2014 sem verkefnastjóri yfir fyrstu vefverslun NTC sem fór síðan í loftið sama ár. Þar stýrði hún uppsetningu og þróun vefverslunarinnar og leiddi ferlið með öflugum hópi starfsmanna NTC. Hún tók svo við sem rekstrar- og innkaupastjóri árið 2017.