Mary var aðeins tíu ára en dreymdi um misþyrmingar og morð á litlum börnum – Hin skelfilega saga eins yngsta barnamorðingja er vitað er um – DV

0
96

Mary Bell var aðeins 11 ára gömul þegar hún var dæmd í lífstíðarfangelsi fyrir skelfileg morð á tveimur litlum börnum.

En Mary sat aðeins inni í 12 ár, var gefið nýtt nafn af yfirvöldum og svo að segja hvarf.

En hver var Mary Bell? Hvað kom tíu ára barni til að myrða tvö smábörn, þriggja og fjögurra ára? Og hvað varð um hana?

Mary Bell Saga Mary

Mary fæddist árið 1957 í í Newcastle í Bretlandi og var æska hennar vægast sagt skelfileg.

Móðir hennar, Betty McCrickett, var 16 ára vændiskona þegar að Mary fæddist. Hún tók fréttunum um óléttuna vægast sagt illa og þegar að ljósmóðir hugðist leggja barnið í fang hennar eftir fæðinguna sagðist sagðist hún ekki vilja sjá ,,þetta.”

Þrátt fyrir ungan aldur Betty var Mary hennar annað barn.

Betty lét sig oft hverfa svo dögum skipti. Hún var eftirsótt í sínu ,,fagi” þar sem hún var ,,dominatrix” – vændiskona sem sérhæfði sig í að kvelja karlmenn með slíkar hvatir.

Og á þessum árum voru þær fáar, vændiskonurnar er buðu upp á slíka þjónustu. Og allra síst í Newcastle.

Mary ólst upp í fátækrahverfi Newcastle. Endalaus ,,slys“

Betty skildi Mary og systkini hennar eftir, oft í umsjá Billy Bell, ofbeldisfulls drykkjumanns með langa sakaskrá. Hafði Billy gifst Betty rétt eftir fæðingu Mary en hvort hann var hennar líffræðilegi faðir er ekki vitað.

Þrátt fyrir að Billy vanrækti börnin og ætti það til að beita þau ofbeldi, var að Mary alltaf létt þegar að móðir hennar fór. Því þótt Billy væri slæmur var móðir hennar langt um verri.

Betty henti einu sinni Mary út um glugga, hún mokaði í hana róandi lyfjum til að svæfa hana og var Mary sífellt að lenda í ,,slysum” heima. Hún datt niður stiga, brann illa á heitri hellu, það duttu hlutir á höfuð hennar…..,,slysin” voru endalaus.

Það var mikið um auðar byggingar í nágrenninu. Sumir segja að Betty hafi verið að reyna að myrða Mary en aðrir telja hana hafa verið með ,,Munchausen by proxy” heilkenni sem lýsir sér í því að einstaklingur, oftast foreldri, skaðar bar í þeirra umsjá til að fá athygli og meðaumkun.

Betty gekk svo langt að ,,selja” Mary. Kaupandinn var kona sem ekki var heil á geði og gat ekki átt börn. Hún hafði margoft sótt um að ættleiða en ávallt verið neitað.

Systur Betty voru búnar að fá nóg. Þær höfðu margoft grátbeðið Betty um að taka að sér Mary en þrátt fyrir augljósa andúð á barni sínu neitaði Betty alltaf.

Svo fór að eldri systir Betty fór heim til konunnar, sem Mary ,,hafði” verið seld til, og sótt með valdi og skilaði heim. Enginn veit hvað gerðist á heimili konunnar meðan að Mary dvaldi þar.

Gatan sem Mary bjó við. Misnotkun frá fjögurra ára aldri?

Mary hélt því síðar fram að móðir hennar hefði byrjað að leyfa mönnum að misnota hana gegn greiðslu þegar hún hún var fjögurra ára gömul. Stundum hafi móðir hennar tekið þátt.

Hvort það er satt eða ekki er það morgunljóst að æska Mary var í alla staði hryllileg. Meðal þess sem hún þurfti að þola var að sjá bestu vinkonu sína lenda undir strætisvagni. Telpan lést. Báðar voru þær fimm ára gamlar.

Mary varð sífellt undarlegri í háttum. Hún talaði við fáa en skólasystkini hennar voru hrædd við hana því hún átti það til að rjúka upp og efna til slagsmála eða meiða þau á annan hátt. Sérstaklega með að reyna að kyrkja þau.

,,Datt“ fram af þakbrún

Vikurnar fyrir fyrra morðið var hegðun Mary jafnvel enn óvenjulegri og ofbeldisfyllri. Þann 11. maí 1968 var hún að leika sér við þriggja ára dreng á þaki gamals loftvarnabyrgis. Hennar eina vinkona, Norma, 13 ára, er bjó við hliðina á henni var með í för.

Drengurinn datt fram af þaki byrgisins og slasaðist alvarlega. Sagði hann annaðhvort Mary eða Normu hafa hrint sér fram af þakinu en enginn trúði litla drengnum, hann var talinn fara með rugl enda með heilahristing auk fleiri áverka, meðal annars á höfði.

Því var talið  að um slys væri að ræða.

En daginn eftir fall drengsins mættu þrjár konur á lögreglustöð og sögðu Mary hafa reynt að kyrkja ungar dætur þeirra. Lögregla ræddi stuttlega við Mary sem neitaði öllum sökum og var málið látið niður falla.

Martin litli ásamt móður sinni, June. Morðið á Martin

Þann 25. maí, daginn fyrir ellefta afmælisdag Mary, kyrkti hún hinn fjögurra ára Martin Brown til bana. Hafði hún lokkað hann með sér í yfirgefið húsnæði með því loforði að leika við hann.

Martin hafði líklegast aðeins verið látin í nokkrar mínútur þegar drengir, sem voru í feluleik í húsinu, fundu hann. Þeir hlupu út og ruku að fyrsta manni sem þeir sáu. Sá hét John Hall og hljóp hann upp á aðra hæð hússins þar sem Martin lá og hóf endurlífgunartilraunir.

Meðan John var að reyna að hnoða Martin, árangurslaust, til lífsins komu að tvær stúlkur, þær Mary og Norma. Báðar virtust heillaðar af því sem í gangi var en John vísaði þeim út.

Næst lá leið þeirra heim til frænku Martins litla, Ritu Finlay. Þegar hún kom til dyra sagði Mary að systursonur hennar hefði lent í slysi en þær vissu ekki hvort hann væri á lífi ,,því það væri of mikið blóð til að sjá það.”

Báðir voru þær skælbrosandi.

,,Megum við sjá líkið?“

Lögregla hafði enga hugmynd um hvað hefði valdið dauða Martins litla því enga áverka var að sjá á líkinu fyrir utan að Martin hafði augljóslega froðufellt. Ólíkt sögu Mary og Normu var aftur á móti lítið sem ekkert blóð á eða við lík Martins.

Aftur á móti fannst tómt glas af róandi töflum rétt hjá líkinu og var úrskurðað að Martin hefði vafrað inn í húsið, fundið lyfjaglasið, tekið töflurnar og dáið af völdum þeirra. Og með því var málinu lokað.

Í raun var það algjör tilviljun að lyfjaglasið reyndist vera við líkið.

Nokkrum dögum eftir dauða Martins var líkvaka drengsins haldin á heimili foreldra hans.  Bönkuðu þær Mary og Norma upp á hjá foreldrum barnsins og spurðu hvort þær mætti hitta hann.

Móðir Martins sagði þeim, með tárin í augunum að Martin væri látin. Hafði hún augljóslega engan grun um að stúlkurnar vissu það mæta vel.

Mary svaraði því til að hún vissi að hann væri dáinn en krafðist þess, flissandi, að sjá líkið.

Full hryllings, skellti móðir Martins í lás.

Einn að leikskólamiðum Mary og Normu. Hótanir á leikskóla

Örfáum dögum síðar fóru Mary og Norma inn á leikskóla í heimildarleysi og skildu þar eftir nokkra handskrifaða miða. Á þeim stóð að þær hefðu myrt Martin og ætluðu næst að myrða börn úr leikskólanum.

Enn og aftur var haft samband við lögreglu sem ótrúlegt nokk vísaði miðunum á bug sem hrekk, jafnvel þótt að nafn Mary Bell væri enn og aftur að poppa upp. Og þegar leikskólayfirvöld kvörtuðu yfir að Mary stæði við skólahliðið og ógnaði litlum börnum gerði lögreglan ekkert annað en að heimsækja hana og biðja hana um að hætta því.

Annar leikskólamiðanna. Morðið á Brian

Mary sagði öllum sem vildu heyra í skólanum að hún hefði myrt Martin Brown. En þar sem hún hafði orð á sér fyrir að vera krónískur lygari trúði henni enginn.

Þangað til annar lítill drengur var myrtur.

Þan 31. júlí, kyrkti Mary, hugsanlega með aðstoð Normu, hinn þriggja ára gamla Brian Howe. Í ofanálag stakk Mary líkið með skærum, skar stórt M framan á brjósthol hans og klippti af honum kynfærin.

Þegar uppgötvaðist að Brian var horfin hófu eldri systur hans leit að honum og báðu vini og nágranna að koma til hjálpar. Að sjálfsögðu voru Mary og Norma með þeim fyrstu að gefa sig fram og kom Mary meira að sega með tillögur um leitarstaði. Og fannst lík Brians á einum þeirra sem var byggingarsvæði.

Tveir litlir drengir höfðu verið myrtir á tveimur mánuðum og fór fólk að fyllast ótta. Enginn trúði almennilega pillusögunni um andlát Martins.

Fórnarlömb Mary. Martin er til vinstri og Brian til hægri. Skellihlæjandi við kistuna

Lögregla greip loksins til aðgerða og hóf að yfirheyra íbúa í hverfinu. Og smám saman komst lögregla að þeirri skelfilegu niðurstöðu að ekki aðeins væri um sama morðingja að ræða,  heldur væri viðkomandi að öllum líkindum barn.

Öll börn hverfisins voru yfirheyrð. Normu fannst athyglin augljóslega spennandi en Mary vildi engu svara, ekki einu sinni þegar henni var bent á að hún hefði sést á gangi með Brian litla daginn sem hann var myrtur.

Sama dag og jarða átti Martin vildi lögregla eiga annað samtal við Mary. Hún var ekki heima hjá sér en fannst utan við hús fjölskyldu Brians, skellihlæjandi þegar að lita kistan var borin út.

Meðal þess sem fannst á heimili Mary voru skærin. Yfirheyrslur og ákærur

Mary laug alls kyns sögum við næstu yfirheyrslur en gat þó ekki stillt sig um að ræða morðin á drengjunum, og þá einna helst meðferðina á líkunum. Og það varð henni að falli, því hún gaf upp alls kyns upplýsingar sem haldið hafði verið leyndum, til að mynda að M hefði verið skorið á lík Brians.

Norma brotnaði saman við yfirheyrslur og játaði að hafa verið með Mary en sjálf ekki komið nálægt morðunum. Mary reyndi aftur á móti að kenna Normu um morðin.

Báðar voru ákærðar fyrir morðin tvö.

Saksóknari hélt því fram að Mary væri fullkomlega heilbrigð á geði, hún hefði einfaldega notið þess að myrða. Í fjölmiðlum var hún kölluð fædd ill, hreinræktað djöflabarn.

Mary Bell Niðurstöður geðrannsókna

Bæði Mary og Norma voru settar í ítarlegar rannsóknir og hvorki meira né minna en fjórir sálfræðingar og geðlæknar voru sammála um niðurstöðurnar. Norma var töluvert þroskaskert, talin hafa þroska á við 8 ára barn og hafði elt Mary í blindni.

Mary væri aftur á móti afar vel gefin en óforbetranlegur lygari, full af vantrausti og hatri á öllu og öllum, nösk á að finna veikleika fólks og nýta sér þá og afar ofsafengin í skapi.

Hún væri aftur á móti ekki veik á geði.

Í desember 1968 var Mary dæmd fyrir manndráp, en ekki morð, öllum að óvörum. Taldi kviðdómur hana of unga til að hafa haft fullkomlega stjórn á eigin gjörðum.

Norma var talin of þroskahömluð til að hafa haft nokkuð að segja með morðin, annað en að fylgja Mary eftir, og því sýknuð af öllum ákærum.

Mynd af Mary, sennilegast tekin rétt fyrir lausn hennar. Laus eftir tólf ár

Yfirvöld töldu Mary of hættulega samfélaginu og var úrskurður dómara að hún skyldi sitja inni “At Her Majesty’s pleasure” sem í breskum lögum þýðir að viðkomandi mun sitja inni þar til annað er ákveðið – engin árafjöldi er tiltekinn.

Næstu árin var Mary á lokuðu heimili, í umsjón lækna og sálfræðinga sem fylgdust ítarlega með henni. Og að tólf árum liðnum, árið 1980, var gefinn út sá úrskurður að Mary væri orðin fullkomlega heilbrigð og engum stafaði hætta af henni.

Hún var þá 23 ára gömul.

Ódagsett mynd af Mary, tekin eftir að hún fékk frelsið. Henni var sleppt en undir ströngum skilyrðum. Mátti hún ekki nálgast börn og varð að mæta reglulega til lögreglu. En til að auðvelda henni aðlögunina við eðlilegt líf  og koma í veg fyrir áreiti fékk hún nýtt nafn.

Þrátt fyrir það tókst fjölmiðlum að þefa uppi íverustaði Mary næstu árin og þurfti hún því oft að flytja. Það kom reyndar stundum fyrir að reiðir íbúar réðust að húsnæði hennar og kröfðust þess að hún hunskaðist í burtu frá þeim og börnum þeirra.

Ódagsett mynd af Mary. Dóttirin

Mary eignaðist dóttur árið 1984, en ekki er vitað um faðernið. Er sú næstum örugglega eina barn Mary.

Þær mæðgur bjuggu í frið og spekt næstu 14 árin en þá komust fjölmiðlar aftur á snoðir um hvar Mary væri að finna. Og ekki nóg með það, að hún ætti sjálf barn. Því var slegið upp á forsíðum blaða og þannig komst dóttir Mary að glæpum móður sinnar.

Í ljós kom að Mary hafði aldrei talað um fortíð sína við dóttur sína.

Árið 1977 fundu fjölmiðlar Mary enn og aftur. Þegar að Mary fékk nýtt einkenni var einnig úrskurðað að hver þau börn sem hún kynni að eignast fengju einnig fullkomna nafnleynd fram að 18 ára aldri.

En Mary fór í mál, fór fram á ævilanga nafnleynd fyrir dóttur sína, og vann hún það mál árið 2003.

Sagðist eiga refsinguna skilið

Árið 1998 skrifaði rithöfundurinn Gitta Sereny ævisögu Mary, með hennar aðstoð. Í henni segir Mary frá þeim andlegu, líkamlegu og kynferðislegu misþyrmingum sem hún varð fyrir sem barn og kennir hún móður sinni um. Í bókinni er einnig rætt við ættingja, kennara, vini og fagfólk sem kom að meðferð Mary.

Ein af síðustu myndunum sem vitað er að teknar hafi veri af Mary Bell. Í bókinni tekur Mary skýrt fram að hún hafi fyllilega átt skilið dóm fyrir morðin, hún hafi vissulega framið þau. Hún kvaðst iðrast mjög og afsaki hræðileg barnæska ekki gjörðir hennar.

Mary hefur aldrei komist í kast við lögin eftir að hún var leyst úr haldi og hefur til margra ára tekist að lifa í friði og spekt. Ekkert er vitað um afdrif dóttur hennar.