Meðlimir glæpagengja eru grýttir og brenndir til bana á Haítí – DV

0
78

Á annan tug grunaðra meðlima glæpagengja voru grýttir og/eða brenndir til bana í Port-au–Prince, höfuðborg Haítí, á mánudaginn. Lögreglan og sjónarvottar skýra frá þessu. Í tilkynningu frá lögreglunni segir að við leit í lítilli langferðabifreið, sem vopnaðir menn hafi verið í, hafi lögreglan fundið og lagt hald á vopn og fleira. Þess utan hafi rúmlega tugur manna, sem var í bílnum, verið tekinn af lífi af almennum borgurum.

Lögreglan skýrði ekki nánar frá hversu margir voru drepnir eða hvernig eða af hverju lögreglan missti stjórn á ástandinu.

Sameinuðu þjóðirnar hafa varað við ástandinu á Haítí og segja að það veki minningar um ástandið á stríðssvæðum.

Þessi nýjasta ofbeldishrina hófst á mánudaginn þegar meðlimir glæpagengja réðust inn á heimili almennra borgara og réðust á fólk á götum úti.

„Ef glæpagengin ráðast á okkur, þá verðum við að verja okkur. Við eigum einnig vopn, sveðjur, við tökum vopnin þeirra og við munum ekki flýja,“ sagði einn íbúi.