Meindýr, mygla, asbest og eldhætta – Ástæðan fyrir því að Justin Trudeau flutti út – DV

0
67

Forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, býr ekki lengur í forsætisráðaherrabústað landsins vegna ástands hússins.

Eignin sem um ræðir er komin nokkuð til ára sinn en hún var byggð á seinni hluta 19. aldar. Þessi 35 herbergja glæsivilla er við Sussex Drive í Ottawa en Trudeau og fjölskylda hans fluttu í nóvember í minni, 22 herbergja eign, í Rideau Hall.

National Post greindi frá því á dögunum að forsætisráðherrabústaðurinn hafi verið orðinn óhæfur til búsetu og löngu verið kominn tími á viðhald.

Þannig er asbest að finna í veggjum hússins, mygla var farin að gera vart við sig víða og þá voru vatnslagnir orðnar ryðgaðar. Þá er þess getið að eldhætta hafi verið til staðar vegna gamalla raflagna. Meindýr á borð við mýs höfðu komið sér vel fyrir og voru milliveggir fullir af músaskít.

Framtíð hússins er óljós og er verið að meta kosti og galla þess að ráðast í fokdýrar framkvæmdir til að koma húsinu í stand. Talið er að kostnaðurinn við endurbæturnar geti numið um þremur milljörðum króna, en í frétt National Post er bent á að hægt sé að kaupa allar tíu dýrustu eignirnar á Ottawa-svæðinu fyrir þann pening.