1 C
Grindavik
27. nóvember, 2020

Meira en bara tuddaskapur

Skyldulesning

Um 30 manns hér á landi stunda reglulega hjólaskautaat.

Um 30 manns hér á landi stunda reglulega hjólaskautaat.

Ljósmynd/Aðsend

„Manni leiðist aldrei þegar maður sér tíu stelpur í tuddaskap, hendandi hvor annarri í gólfið,“ segir Guðný Jónsdóttir, stofnandi Hjólaskautafélags Reykjavíkur létt í bragði, þegar hún er beðin um að lýsa hjólaskautaati á einfaldan hátt fyrir blaðamanni.

Íþróttin snýst þó um mun meira en bara tuddaskap og segir Guðný hana ekki fela í sér frekari áhættu en aðrar íþróttir, enda séu keppendur vel settir með hlífðarbúnaði.

Hjólaskautafélagið samdi á dögunum við Reykjavíkurborg um húsnæði í Sævarhöfða á góðum kjörum. Um er að ræða verkefni á vegum borgarinnar þar sem húsnæði í eigu hennar eru leigð út tímabundið til skapandi starfsemi, í stað þess að þau standi auð.

Það þarf þykkan skráp til þess að stunda hjólaskautaat.

Það þarf þykkan skráp til þess að stunda hjólaskautaat.

Ljósmynd/Aðsend

Unnið hörðum höndum að uppsetningu hjólaskautabrautar.

Unnið hörðum höndum að uppsetningu hjólaskautabrautar.

Ljósmynd/Aðsend

Þrjátíu til fjörutíu félagar, aðallega konur

„Ég stofnaði þessa íþrótt árið 2011 og við höfum unnið fullt af sigrum síðan þá,“ segir Guðný. Um þrjátíu manns stunda reglulega hjólaskautaat, eins og Árnastofnun hefur samþykkt að kalla það, en íþróttin er einnig þekkt undir heitinu hjólaskautaruðningur.

Hjólaskautaat (e. Roller derby) er hröð snertiíþrótt sem keppt er á hjólaskautum á sporöskjulaga braut – leikurinn sem skiptist niður í fjölda tveggja mínútna lota sem kallast „djömm“ og í hverju djammi eru fimm skautarar úr hvoru liði inni á brautinni: Einn jammer og fjórir varnarmenn.

Hlutverk jammersins er að skora stig með því að hringa varnarmenn andstæðingsins á meðan hlutverk varnarmannanna er að verjast því að jammer andstæðingsins komist fram hjá þeim auk þess að hjálpa sínum jammer að komast fram hjá andstæðingnum. Það eru engir boltar í hjólaskautaati en oft er talað um að jammerinn sé „boltinn“.

„Við erum búin að vera á bilinu 30 til 40 meðlimir að æfa frá stofnun félagsins, aðallega konur, en við bjóðum samt karlmenn velkomna og sérstaklega kynsegin fólki. Draumurinn er líka að stofna barnalið,“ segir Guðný.

Spila á gömlu bátaverkstæði

Eitt hjólaskautafélag er á Íslandi, Ragnarrök, og þurfa því liðsmenn að keppa við lið erlendis frá. Lið hafa verið dugleg að sækja íslenska liðið heim en faraldurinn hefur sett strik í reikninginn í þeim efnum. „Við erum heppin með það að það eru allir tilbúnir að koma til Íslands,“ segir Guðný.

Mikil viðhaldsvinna hefur nú tekið við, með tilkomu nýja húsnæðisins, og hafa hjólaskautadrottningar- og kóngar unnið hörðum höndum að uppbyggingu aðstöðunnar. Segir Guðný að flest fari fram í krafti sjálfboðavinnu.

„Þetta er gamalt verkstæði þar sem björgun var, bátaverkstæði. Við fengum gryfjuhlutann og síðan fékk bíómynd skrifstofuhlutann. Þetta er flott verkefni en gallinn er auðvitað sá að þetta er ekki framtíðarhúsnæði,“ segir hún. Hún hlakkar til að sjá íþróttina vaxa á næstunni, taki faraldurinn einhvern enda í bráð.

„Við hlökkum til að byrja með barnastarf og síðan erum við spennt fyrir því að opna fyrir diskóskautakvöld – þá myndum við byrja á að hafa opið skautakvöld einu sinni í viku og sjá hvernig það gefst,“ segir Guðný að endingu.

Innlendar Fréttir