7.3 C
Grindavik
24. október, 2021

Meira gagnsæi með samfélagsskýrslum

Skyldulesning

Páll snorrason, framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins Eskju á Eskifirði, segir næstu verkefni vera að vinna að bættri flokkun og hreinsun.

Eskja hf. hefur birt sína fyrstu samfélagsskýrslu. Skýrslan telur tuttugu og níu blaðsíður og er greinargóð samantekt á starfsemi félagsins; stjórn og stjórnunarháttum, helstu stjórnendum, sögu, gildum og skipulagi eignarhalds.

Við fyrstu sýn kann skýrslan að líta út eins og hvert annað kynningarplagg fyrir fyrirtæki en þegar nánar er rýnt í hana má sjá upplýsingar sem ekki eru birtar annars staðar.

Ítarlegar upplýsingar um rekstur fyrirtækisins má sjá í skýrslunni, fyrir rekstrarárið 2020 og 2019 til samanburðar.

1,7 milljarðar í laun

Samkvæmt framsetningu í samfélagsskýrslu Eskju voru rekstrartekjur félagsins 8,2 milljarðar árið 2020 og 7,2 milljarðar árið 2019.

Árið 2020 voru rekstargjöld alls 5,1 milljarður en 4,6 milljarðar árið 2019 svo EBITA áranna er svipuð; 3,2 milljarðar árið 2020 og 301 milljarður árið 2019.

Bæði árin greiddi fyrirtækið um 400 milljónir í tekjuskatt og var hagnaður eftir skatt árið 2020 1,4 milljarðar og 1,2 milljarðar árið 2019.

Aðalsteinn Jónsson SU-11 er eitt flaggskipa Eskju, smíðaður árið 2004 í Noregi. Eskja hefur einsett sér að minnka notkun eldsneytis og hætta notkun svartolíu.

Ljósmynd/Eskja

Árið 2019 voru tveir milljarðar greiddir í laun og launatengd gjöld hjá Eskju og 1,7 milljarðar árið 2020, á sama tíma námu arðgreiðslur úr fyrirtækinu 300 milljónum fyrra árið og 500 milljónum það seinna.

Í skýrslunni má sömuleiðis nálgast upplýsingar um skattspor Eskju.

Þar kemur fram að í heildina sé skattaslóð fyrirtækisins 1.395 milljónir árið 2020.

Kolefnisgjald upp á 41 milljón

Greiddur tekjuskattur var 309 milljónir, veiðigjöld námu 52 milljónum, mótframlag í lífeyrissjóði 171 milljónum og tryggingagjald 108 milljónum.

Greidd fasteignagjöld árið 2020 voru 48 milljónir, gjöld í stéttarfélög 23 milljónir og kolefnisgjald árið 2020 nam 41 milljón.

Þegar allt er talið, með skattgreiðslum og lífeyrissjóðsgreiðslum starfsmanna, er skattaslóð Eskju, sem fyrr segir, 1.395 milljónir.

Samsvarar skattaslóðin um fjórtán milljónum á hvern starfsmann fyrirtækisins og 329 þúsund krónum á hvert þorskígildistonn aflaheimilda sem fyrirtækið hefur yfir að ráða.

Nokkuð ítarleg grein er gerð fyrir umhverfismálum fyrirtækisins í skýrslunni.

Þar má merkja áherslu á notkun rafmagns í starfsemi, sem áður var knúin með meira mengandi orkugjöfum, og endurnýjun fiskiskipaflotans. Eskja hefur alfarið hætt notkun svartolíu.

„Eskja er að gefa út sína fyrstu samfélagsskýrslu og tilgangur með útgáfu hennar er bæði að auka gagnsæi í okkar starfsemi og gera grein fyrir árangri okkar auk áhrifa á umhverfið og samfélagið,“ segir Páll Snorrason, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Eskju.

Vinna að bættri flokkun og hreinsun

„Við erum stolt af okkar árangri á síðasta ári og höfum lært margt í þessu ferli en við tökum okkar samfélagslegu ábyrgð alvarlega en getum gert betur. Á næstu misserum ætlum við okkur að vinna enn betur að flokkun á úrgangi sem fellur til í okkar starfsemi, erum að vinna að hreinsunarátaki á okkar athafnasvæði eftir miklar framkvæmdir undanfarinna ára. Að auki mun félagið skoða leiðir til kolefnisjöfnunar og fjárfestingarkosti sem dregur úr okkar kolefnisspori,“ segir Páll.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir