Áskorun næstu ára er að koma í veg fyrir aukinn ójöfnuð í kjölfar kórónuveirufaraldursins en finna má vísbendingar nú þegar um ójöfnuð vegna veirunnar.
Þetta var meðal þess sem kom fram í greiningu sem Vilhjálmur Hilmarsson, hagfræðingur BHM, kynnti fyrir hönd sérfræðingahóps verkalýðshreyfingarinnar á veffundi fyrir hádegi.
Ætlunin var að varpa ljósi á hvernig heimsfaraldurinn kemur niður á mismunandi hópum samfélagsins en erindið kallast: Kófið og Hrunið: Lærdómur og leiðin fram á við.
Í samantekt Vilhjálms er stuðst við gögn um samdrátt í launagreiðslum innan einstaka atvinnugreina annars vegar milli mars og september 2008 og 2009 og milli mars og september 2019 og 2020 hins vegar. Samkvæmt niðurstöðum greiningarinnar hefur launafólk í láglaunagreinum tekið mun meiri skell af kófinu en bankahruninu 2008 og vegur atvinnumissir þar þyngst.
Bent er á að í Evrópu sé kófið kreppa ferðaþjónustugreina og kreppa þeirra sem minna mega sín. Efnahagslegar afleiðingar veirunnar leggjast þyngst á lágtekjuhópa í Evrópu en þeir hópar hafa verið líklegri til að missa vinnuna í þessu ástandi en aðrir hópar.
Vilhjálmur segir áhrif veirunnar á láglaunagreinar hér á landi fyrst um sinn meiri en áhrif efnahagsáfallsins 2008 og svo virðist sem ástandið núna komi verr niður á greinum sem borgi lág laun.
Enn fremur bendir Vilhjálmur á að konur og ungt fólk af erlendum uppruna sé sérstaklega útsett gagnvart efnahagslegum áhrifum kófsins. Þetta séu þeir hópar sem vinni eða hafi unnið í atvinnugreinum sem lentu illa í efnahagslegum áhrifum veirunnar.
Eitt sé svipað nú og í Hruninu; byggt hafi verið um of á einni atvinnugrein. Síðustu ár hafi Ísland verið háðara ferðaþjónustu en flest lönd.