Meistaradeild Evrópu: PSG bjargaði gríðarlega mikilvægu stigi gegn Newcastle – Frábær endurkoma Manchester City – DV

0
78

Sex leikjum er nýlokið í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Leikið var í 5. umferð í riðlum E til H. E-riðill
Feyenoord tók á móti Atletico Madrid og vann spænska liðið nokkuð þægilegan sigur, 1-3. Tvö marka Atletico voru sjálfsmörk en Mario Hermoso skoraði eitt.

Fyrr í dag vann Lazio Celtic í þessum riðli og þýða úrslit dagsins að Atletico og Lazio eru komin áfram.

Getty Images F-riðill
Í þessum dauðariðli var allt galopið fyrir leiki kvöldsins. Í Mílanó tók AC Milan á móti Borussia Dortmund. Marco Reus kom Þjóðverjunum yfir með marki af vítapunktinum á 10. mínútu en Samuel Chukwueze jafnaði fyrir Milan fyrir leikhlé. Snemma leiks hafði Olivier Giroud klikkað á punktinum fyrir heimamenn.

Jamie Bynoe-Gittens kom Dortmund yfir eftir tæpan klukkutíma leik og Karim Adeyemi innsiglaði svo glæsilegan 1-3 sigur.

Newcastle var þá grátlega nálægt því að vinna frábæran útisigur á Paris Saint-Germain. Heimamenn voru mun meira með boltann og fengu fleiri færi en það voru gestirnir frá Englandi sem komust yfir með marki Alexander Isak á 24. mínútu.

Undir blálokin fékk PSG hins vegar vítaspyrnu og úr henni skoraði Kylian Mbappe. Lokatölur 1-1.

Dortmund er á toppi riðilsins með 10 stig og er komið áfram. PSG er með 7 stig, Newcastle 5 og AC Milan 5. Newcastle tekur á móti Milan í lokaumferðinni en PSG heimsækir Dortmund.

Getty Images G-riðill
Manchester City vann endurkomusigur á RB Leipzig eftir að hafa lent 0-2 undir á heimavelli. Erling Braut Haaland minnkaði muninn á 54. mínútu áður en Phil Foden jafnaði. Julian Alvarez skoraði svo sigurmarkið á 87. mínútu.

City og Leipzig voru þegar komin áfram í þessum riðli en fyrrnefnda liðið hefur nú tryggt toppsætið. Í hinum leik riðilsins vann Young Boys Rauðu Stjörnuna og tekur þriðja sætið.

Getty Images H-riðill
Porto heimsótti Barcelona og var útlitið gott fyrir gestina þegar Pepe kom þeim yfir á 30. mínútu. Joao Cancelo jafnaði hins vegar skömmu síðar og Joao Felix gerði sigurmarkið á 57. mínútu. Lokatölur 2-1.

Fyrr í dag vann Shakhtar sigur á Royal Antwerp í þessum sama riðli.

Barcelona er með 12 stig á toppi riðilsins og Porto og Shakhtar eru með 9. Barcelona er komið áfram þar sem Porto og Shakhtar mætast innbyrðis í úrslitaleik um sæti í 16-liða úrslitum.

Getty Images