Miðjarðarhafsmataræði getur dregið úr líkum á elliglöpum um fjórðung – DV

0
97

Miðjarðarhafsmataræði, sem samanstendur af hnetum, sjávarfangi, heilum grjónum og grænmeti gæti dregið úr á líkunum á elliglöpum um allt að fjórðung. Þetta eru lofandi frumniðurstöður nýrrar rannsóknar. Þær gætu leitt til þróunar nýrra fyrirbyggjandi aðgerða. The Guardian skýrir frá þessu.

Rannsóknin bendir til að það að borða mikið af plöntufæði geti haft „fyrirbyggjandi áhrif“ gegn elliglöpum og skiptir erfðafræðilega áhætta fólks þá engu máli að sögn vísindamannanna sem segja að niðurstöðurnar geti verið grunnur að lýðheilsuáætlunum framtíðarinnar ef aðrar rannsóknir staðfesta þessar niðurstöður.

Dr Janice Ranson, annar aðalhöfunda rannsóknarinnar, sagði að niðurstöðurnar sýni jákvæð áhrif þess að halda sig við Miðjarðarhafsmataræði sem innihaldi mikið af ávöxtum, grænmeti, heilu korni og hollri fitu.

Hún sagði að fyrirbyggjandi áhrif mataræðisins gegn elliglöpum hafi verið óháð erfðum fólks og því sé líklegt að þetta mataræði hafi ávinning í för með sér fyrir þá sem vilja borða hollan mat og draga úr líkunum á að fá elliglöp.

Rannsóknin hefur verið birt í vísindaritinu BMC Medicine. Hún byggir á upplýsingum frá rúmlega 60.000 Bretum.