Mikið á seyði í helstu kjarnorkumiðstöð Norður-Kóreu – DV

0
102

Bandaríska hugveitan 38 North, sem fylgist náið með framvindu mála í Norður-Kóreu, segir að miðað við gervihnattarmyndir þá séu mikil umsvif þessa dagana í helstu kjarnorkumiðstöð landsins. Þetta þykir benda til að verið sé að reyna að bæta við kjarnorkuvopnaeign landsins. Hugveitan segir að gervihnattarmyndir sýni að nánast sé búið að ljúka við smíði „tilrauna léttvatnskjarnaofns“.

Myndirnar benda til að fimm megavatta kjarnaofn sé enn í notkun. Auk þess sýna þær að verið er að stækka þann hluta miðstöðvarinnar þar sem úran er auðgað.

Ekki er langt síðan Kim Jong-un, einræðisherra, sagði að auka verði framleiðslu efna í kjarnorkusprengjur. Segir hugveitan að sú þróun sem á sér stað við verið þessa dagana endurspegli nýleg fyrirmæli einræðisherrans um að auka framleiðslu efna, sem eru notuð í kjarnorkusprengjur.

Norðurkóreskir fjölmiðlar birtu í síðustu viku myndir af Kim Jong-un þar sem hann var að skoða nýja, litla kjarnaodda.

Sérfræðingar telja að allt þetta bendi til að Norður-Kóreumenn hafi náð framförum á tæknisviðinu hvað varðar framleiðslu kjarnorkuvopna. Einnig bendi þetta til að ekki sé ýkja langt í að þeir sprengi kjarnorkusprengju í tilraunaskyni. Þeir hafa sprengt sex kjarnorkusprengjur til þessa.